Tryggja þarf öryggi starfsmanna

AFP

Bæta þarf öryggi og stytta vinnudag verkamanna sem vinna hörðum höndum við að gera allt klárt fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem haldið verður í Katar 2022. Sameinuðu þjóðirnar segja að þetta sé nauðsynlegt til þess að verja starfsmennina fyrir hita og raka á vinnusvæðinu.

Hundruð þúsunda farandverkamanna starfa við undirbúninginn og hefur ill meðferð á þeim sætt gagnrýni víða um heim. Hitinn og rakinn í Katar tekur verulega á og leið yfir nokkra maraþonhlaupara á heimsmeistaramótinu í Doha nýverið vegna þess þrátt fyrir að hlaupið hafi farið fram á miðnætti. Rakastigið mældist um 73% og hitinn var 33 gráður þegar hlaupið fór fram. 

Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) og atvinnumálaráðuneyti Katar hvetja til aðgerða til þess að tryggja öryggi þeirra 4 þúsund verkamanna sem eru að störfum á leikvangi HM2022. Nú er skylda að þeir taki hlé frá störfum frá 11:30 til 15.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert