Handtóku rangan mann

Skoska lögreglan lét manninn lausan á laugardag.
Skoska lögreglan lét manninn lausan á laugardag. AFP

Skoska lögreglan hefur sleppt manni úr haldi sem var handtekinn grunaður um að hafa myrt fjölskyldu sína fyrir átta árum.

Maðurinn var handtekinn á flugvellinum í Glasgow á föstudag og var talið að hann væri Frakki sem grunaður er um að hafa myrt eiginkonu sína og fjögur börn árið 2011, Xavier Dupont de Ligonnes. Hann var látinn laus á laugardag þar sem lífsýni sýndu fram á að þetta væri alls ekki Ligonnes. 

Franska lögreglan gaf út alþjóðlega handtökuskipin á hendur Ligonnes eftir morðin í Nantes og þetta er ekki í fyrsta skipti sem lögreglan telur sig hafa fundið hann. 

Xavier Dupont de Ligonnes.
Xavier Dupont de Ligonnes. AFP

Að sögn skosku lögreglunnar var maðurinn, sem var handtekinn, látinn laus á laugardag og hafa hann og fjölskylda hans ákveðið að tjá sig ekki um málið. Maðurinn var að koma frá París þegar hann var handtekinn eftir að lögreglu barst nafnlaus ábending um að þetta væri Ligonnes. 

Leitað var í húsi í Limay, úthverfi Parísar, eftir að maðurinn var handtekinn en sá handtekni bjó þar. Nágrannar sögðu fréttamönnum AFP að húsið væri í eigu Guy Joao, sem kemur upprunalega frá Portúgal en er með franskt og breskt ríkisfang. Joao er kvæntur skoskri konu. Enn er hulin ráðgáta hvers vegna Gu Joao var handtekinn því ekkert í útliti hans minnir á Ligonnes. 

Húsið í Limay þar sem maðurinn sem var handtekinn býr.
Húsið í Limay þar sem maðurinn sem var handtekinn býr. AFP

Dupont de Ligonnes, sem er 58 ára gamall, er grunaður um að hafa skotið fjölskyldu sína til bana og grafið hana undir pallinum fyrir utan hús þeirra í Nantes. Lík þeirra fundust þremur vikum síðar en Ligonnes hafði tilkynnt skólayfirvöldum dætra sinna að þau væru að flytja til Ástralíu þar sem hann væri að taka við nýju starfi. Vinum sínum sagði Ligonnes að hann væri njósnari bandarískra yfirvalda og hann væri að fara í felur á grundvelli vitnaverndar. 

Saksóknari í Frakklandi segir að Ligonnes hafi tekið fjölskyldu sína af lífi. Hann hafi skotið hvert þeirra tvisvar í höfuðið af stuttu færi. Byssan sem hann notaði var með hljóðdeyfi. 

Ráðgátan um hvarf Ligonnes hefur oft ratað í fréttir og hvernig hann gat horfið sporlaust. Marga grunar að hann hafi framið sjálfsvíg. Í bréfi frá árinu 2015 með mynd af tveimur sonum hans sem er undirritað af Ligonnes segir: „Ég er enn á lífi.“ Bréfinu var komið til blaðamanns AFP en ekki hefur tekist að fullsanna að Ligonnes hafi skrifað bréfið sjálfur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert