Sverja af sér myndskeiðið

AFP

Kosningaskrifstofa Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sver fyrir myndskeið sem sýnir mann í gervi Trump ráðast að fjölmiðlafólki og andstæðingum sínum í stjórnmálum en myndskeiðið var sýnt á ráðstefnu fyrir stuðningsmenn forsetans, að því er fram kemur í frétt New York Times.

Um er að ræða atriði úr kvikmyndinni Kingsman: The Secret Service þar sem höfuð forseta Bandaríkjanna er sett yfir mann sem skýtur á fólk en búið er að setja yfir andlit þeirra vörumerki fjölmiðla eins og CNN, Washington Post og NBC TV. Atriðið gerist inni í „Kirkju falsfrétta“ (Church of Fake News) og persóna Trump skýtur öldungadeildaþingmanninn John McCain og eins Bernie Sanders sem tekur þátt í forvali demókrata. Eins ræðst hann á Mitt Romney og Barack Obama.

Skipuleggjendur stuðningsfundar Trumps, American Priority, sem var haldinn á setri Trumps í Miami segja að myndskeiðið sé hluti af úrklippum sem voru sýndar. Þetta sé ekki pólitískt ofbeldi og eigi að styðja við heilbrigða umræðu og vernda tjáningarfrelsið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert