Sverja af sér myndskeiðið

AFP

Kosningaskrifstofa Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sver fyrir myndskeið sem sýnir mann í gervi Trump ráðast að fjölmiðlafólki og andstæðingum sínum í stjórnmálum en myndskeiðið var sýnt á ráðstefnu fyrir stuðningsmenn forsetans, að því er fram kemur í frétt New York Times.

Um er að ræða atriði úr kvikmyndinni Kingsman: The Secret Service þar sem höfuð forseta Bandaríkjanna er sett yfir mann sem skýtur á fólk en búið er að setja yfir andlit þeirra vörumerki fjölmiðla eins og CNN, Washington Post og NBC TV. Atriðið gerist inni í „Kirkju falsfrétta“ (Church of Fake News) og persóna Trump skýtur öldungadeildaþingmanninn John McCain og eins Bernie Sanders sem tekur þátt í forvali demókrata. Eins ræðst hann á Mitt Romney og Barack Obama.

Skipuleggjendur stuðningsfundar Trumps, American Priority, sem var haldinn á setri Trumps í Miami segja að myndskeiðið sé hluti af úrklippum sem voru sýndar. Þetta sé ekki pólitískt ofbeldi og eigi að styðja við heilbrigða umræðu og vernda tjáningarfrelsið.

mbl.is