Krefst þess að uppljóstrarinn gefi sig fram

Þinghúsið á Capitol-hæð í Washington DC.
Þinghúsið á Capitol-hæð í Washington DC. AFP

Donald Trump forseti Bandaríkjanna krafðist þess í dag að svonefndur uppljóstrari, ónefndur starfsmaður leyniþjónustu landsins sem starfaði í Hvíta húsinu, myndi segja á sér deili og sitja fyrir svörum á Bandaríkjaþingi. Starfsmaðurinn lagði fram form­lega upp­ljóstr­un­arkvört­un 12. ág­úst um samskipti Trumps og Volody­myrs Zelenskí, for­seta Úkraínu í sím­tali for­set­anna í júlí. 

Donald Trump forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump forseti Bandaríkjanna. AFP

Full­trú­ar­deild Banda­ríkjaþings, þar sem demó­krat­ar eru í meiri­hluta, hóf form­lega rann­sókn á embætt­is­brot­um Trumps fyrir um þremur vikum síðan. Trump er sakaður um að hafa þrýst á Zelenskí í sím­talinu að láta rann­saka feðgana Joe Biden, fyrr­ver­andi vara­for­seta Banda­ríkj­anna og mögu­leg­an keppi­naut hans um for­seta­stól­inn á næsta ári, og Hun­ter, son hans, vegna tengsla þess síðar­nefnda við úkraínska gas­fyr­ir­tækið Bur­isma.

Trump hef­ur viður­kennt að hafa nefnt mál­efni feðganna í sím­tal­inu.

Fiona Hill kemur í þinghúsið á Capitol-hæð í dag.
Fiona Hill kemur í þinghúsið á Capitol-hæð í dag. AFP


Fiona Hill, fyrrverandi sérlegur ráðgjafi Trumps í málefnum Rússlands sem sat í öryggisráði Bandaríkjanna, situr nú fyrir svörum á lokuðum fundi þingmannanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Demókratar í hópi þingmanna hafa sagst búast við því að hún myndi lýsa yfir áhyggjum sínum af íhlutun Trumps í Úkraínu. Jamie Raskin, þingmaður Demókrataflokksins, sagði í dag að hann vonaðist til þess að framburður Hill myndi varpa ljósi á það sem hann sagði vera „skuggastefnu í utanríkismálum“ sem stýrt væri frá Úkraínu af Rudy Giuliani, lögmanni Trumps. 

Adam Schiff, þingmaður Demókrataflokksins og for­maður njósna­nefnd­ar Banda­ríkjaþings.
Adam Schiff, þingmaður Demókrataflokksins og for­maður njósna­nefnd­ar Banda­ríkjaþings. AFP

Þetta er hluti af rannsókn til undirbúnings ákæru til embættismissis gegn forsetanum og í twitter-færslu sinni fyrr í dag gagnrýndi Trump Adam Schiff, demó­krataþing­mann og for­mann njósna­nefnd­ar Banda­ríkjaþings eftir að Schiff sagði að uppljóstrarinn myndi hugsanlega ekki stíga fram vegna þess að hann óttaðist um öryggi sitt. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert