Hetja hinna fátæku eða spillingakvendi?

Aðdáendur fylkja sér í kringum Cristinu eftir að hún skilaði …
Aðdáendur fylkja sér í kringum Cristinu eftir að hún skilaði atkvæði sínu í forsetakosningunum í gær. AFP

Crist­ina Fer­nández de Kirchner var einn ástsælasti forseti Argentínu á meðan hún gegndi embætti á árunum 2007 til 2015, en forsetatíð hennar fylgdi mikil spillingaflækja.

Þrátt fyrir hverja lögsóknina á fætur annarri var De Kirchner kjörin nýr varaforseti Argentínu er kosningafélagi hennar Alberto Fernandez hlaut tæp 48% atkvæða í forsetakosningum á sunnudag og steypti Mauricio Macri, arftaka de Kirchner, af stóli.

Forsetakosningarnar í Argentínu eru jafnan haldnar síðasta sunnudag októbermánaðar og í þetta sinn markaði kosningadagurinn einnig 9 ára dánarafmæli fyrrverandi forseta Argentínu og fyrrverandi eiginmanns de Kirchner, Néstor Kirchner, sem gegndi embætti forseta árin 2003 til 2007, eða allt þar til eiginkona hans hlaut kjör árið 2007 og sat tvö kjörtímabil.

Cristina ásamt nýkjörnum forseta, Alberto Fernándes.
Cristina ásamt nýkjörnum forseta, Alberto Fernándes. AFP

Fernández tilkynnti forsetaframboð sitt í maí og kom það raunar mörgum á óvart að de Kirchner væri ekki forsetaefni perónista. Ljóst þykir þó að hún hafi haft mikið að segja um gott gengi Fernández í forsetakosningunum, enda hafi margir kjósendur aðspurðir svarað því til að þeir ætluðu að kjósa Cristinu, líkt og hún væri forsetaframboði en ekki varaforsetaefni Fernández.

Skoðanir Argentínubúa á Cristinu eru skiptar, en margir álíta hana Evítu Perón okkar daga fyrir félagsleg verkefni hennar til aðstoðar fátækustu íbúum Argentínu á meðan aðrir telja hana gjörspilltan, popúlískan stjórnmálamann.

Grunuð um að hylma yfir með írönskum stjórnvöldum

Hver lögsóknin hefur fylgt annarri eftir að Cristina lét af embætti 2015, m.a. vegna ásakana um mútur, peningaþvætti og spillingu, auk þess sem hún var grunuð hafa aðstoðað írönsk stjórnvöld við að hylma yfir þátt sinn í hryðjuverkaárás á samkunduhús Gyðinga í höfuðborginni Buenos Aires árið 1994, þar sem 85 létu lífið. Sem fyrrverandi forseti mun Cristina aldrei sæta fangelsi vegna brota sinna, en það kemur þó ekki í veg fyrir að hægt sé að lögsækja hana. Sumar lögsóknanna eru enn yfirstandandi en Cristina neitar sök vegna allra málanna.

Þá skildi Cristina efnahag Argentínu eftir í molum að forsetatíð hennar lokinni. Eitthvað hlýtur hún þó að hafa gert rétt, enda er hún komin aftur til valda aðeins fjórum árum eftir að hinn íhaldssami Macri hafði betur gegn flokksbróður hennar í forsetakosningunum 2015, en margir kenna því hvernig Cristina skildi við búið um það að Macri tókst ekki að uppfylla kosningaloforð sín um að útrýma fátækt.

Umfjöllun Guardian

Umfjöllun BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert