Fyrrverandi forseti ákærður fyrir spillingu

Cristina Fernández de Kirchner, fyrrverandi forseti Argentínu, er ásökuð um …
Cristina Fernández de Kirchner, fyrrverandi forseti Argentínu, er ásökuð um að hafa tekið við milljónum dollara í mútur. AFP

Cristina Fernández de Kirchner, fyrrverandi forseti Argentínu, verður ákærð fyrir spillingu. Hún er sökuð um að hafa tekið við milljónum dollara í mútur yfir 12 ára tímabil og hefur alríkisdómstóll í Argentínu nú úrskurðað að mál hennar fari fyrir dómstóla.

BBC segir Fernández de Kirchner, sem er öldungadeildarþingmaður, neita öllum ásökunum og fullyrði að ákærurnar eigi sér pólitískar rætur.

Sem fyrrverandi forseti mun hún ekki þurfa að sæta fangelsisdómi, en hún nýtur þó ekki friðhelgi gegn því að réttað verði í máli hennar. 

Húsleit var gerð á þremur heimilum Fernández de Kirchner í ágúst á þessu ári í tengslum við rannsóknina.

BBC segir Fernández de Kirchner sakaða um að hafa verið miðpunkturinn í umfangsmikilli spillingarstarfsemi þar sem kaupsýslumenn hafi greitt opinberum embættismönnum milljónir dollara í mútur.

Ásakanirnar byggja m.a. á skráningum Oscar Centeno, sem starfaði sem bílstjóri fyrir framkvæmdasýslu ríkisins á árabilinu 2005-2015. Skrifar Centeno þar m.a. að hann hafi tekið við pokum af fé frá verktökum sem afhentir hafi verið embættismönnum og telur embætti saksóknara heildarfjárhæð mútugreiðslnanna nema um 160 milljónum dollara, en heimili Fernández de Kirchner og skrifstofur stjórnarinnar voru meðal viðkomustaða Centeno með peningagreiðslurnar.

Á annan tug manna, m.a. kaupsýslumenn og fyrrverandi embættismenn, hefur verið handtekinn í tengslum við rannsóknina en það var eftir að dagblaðið La Nación afhenti yfirvöldum minnisbækur bílstjórans fyrr á þessu ári að málið var tekið til rannsóknar. 

Fernández de Kirchner gegndi embætti forseta  á árunum 2007-2015, en hún tók þá við embættinu af eiginmanni sínum Néstor Kirchner, sem var forseti Argentínu 2003-2007. Hann lést árið 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert