Kynlíf breyttist í baráttu fyrir lífinu

Skjáskot

Kona sem fór á Tinder-stefnumót með manni, sem sakaður er um að hafa myrt unga breska konu á bakpokaferðalagi í Nýja-Sjálandi, segist hafa óttast um líf sitt þegar þau áttu kynmök. Kynlífið hafi breyst í baráttu fyrir lífinu.

Réttarhöld hófust í gær yfir 27 ára gömlum Ný-Sjálendingi sem er sakaður um að hafa myrt Grace Millane í fyrra.

Konan bar vitni fyrir dómi í dag. Hún segir að hann hafi þrýst á handleggi hennar og öndunarfæri þannig að hún náði ekki andanum og gat ekki hreyft sig. Hún segist hafa barist um á hæl og hnakka. „Ég var skelfingu lostin,“ sagði konan grátandi við réttarhöldin í dag, samkvæmt frétt Guardian

Hún sagðist hafa þóst missa meðvitund í þeirri von að hann færi af henni. Hann gerði það ekki en hún náði andanum með því að snúa höfðinu til hliðar. „Það getur ekki verið að ég deyi með þessum hætti,“ segist hún hafa hugsað með sér þegar hún taldi daga sína talda. 

Millane hvarf 2. desember eftir að hafa farið á stefnumót með manninum sem nú er talinn hafa myrt hana. Lík Millane, sem var 21 árs þegar hún lést, fannst viku síðar í ferðatösku sem hafði verið grafin í kjarrlendi vestan við borgina Auckland. Maðurinn neitar sök. 

Við réttarhöldin í héraðsdómi í Auckland í dag kom fram að konan hafi átt stefnumót við manninn í mars í fyrra eftir að hafa kynnst honum á Tinder og stundað kynlíf með honum. Þau hittust aftur í nóvember og ætluðu að fá sér drykk saman. Maðurinn sagði henni að hann þyrfti að skipta um föt og fóru þau því saman upp í herbergi hans á CityLife-hótelinu í stað þess að fá sér í glas. Síðan fóru þau og keyptu áfengi í nærliggjandi verslun og drukku það saman uppi á hótelherbergi. Að hennar sögn þrýsti maðurinn á að þau hefðu kynmök en kynlífið varð fljótt ofbeldisfullt. 

Hún segir að þau hafi næstu mánuði skipst á skilaboðum og fyrir rétti í dag sagðist hún telja að hún hefði gefið honum of miklar upplýsingar um sig. Fram kom að konan hafði sent manninum yfir 700 skilaboð á einum mánuði. Hún bar því við að ástæðan hafi verið sú að hún hefði verið hrædd við hann og viljað halda honum góðum. 

1. desember, daginn sem Millane áttu stefnumót við manninn, þrýsti hann mjög á konuna að hitta sig en hún sagðist ekki geta það. Síðustu skilaboðin frá honum þennan dag til hennar voru send hálfri klukkustund áður en hann hitti Millane. 

Snemma morguninn eftir sendi hann henni skilaboð að nýju og var umræðuefnið krikketleikur. Hann reyndi árangurslaust að fá hana á stefnumót 4. desember.

Við réttarhöldin í dag lýsti önnur kona því hvernig hún hefði skipst á skilaboðum við manninn eftir að hafa kynnst honum í gegnum Tinder líkt og hin konan. Þau kynntust í febrúar í fyrra. Ekkert varð af stefnumóti þar sem kynlífsvæntingar mannsins gengu fram af henni, þar á meðal kyrkingar og fleira. 

Hún segir að hann hafi sagt henni að hann vildi harðneskju í kynlífinu, drottnun og kyrkingjar, því þannig yrðu yfirburðir hans meiri. Maðurinn reyndi að fá hana á stefnumót 1. desember en hún neitaði. 

Þriðja konan sem hann kynntist á Tinder bar einnig vitni í dag og lýsti hún því hvernig hann þrýst á háls hennar þannig að hún hafi átt erfitt með að anda þegar þau höfðu kynmök á herbergi hans á CityLife-hótelinu 22. nóvember. „Ég átti í öndunarerfiðleikum en ég hafði unun af þessu,“ sagði hún og að um sameiginlegt samþykki hefði verið að ræða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert