Fresta réttarhöldum í Mehamn-máli

Mehamn, hluti af sveitarfélaginu Gamvik í Finnmörku. Aðalmeðferð í máli ...
Mehamn, hluti af sveitarfélaginu Gamvik í Finnmörku. Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Gunnari Jóhanni Gunnarssyni hefur nú verið frestað fram á útmánuði 2020 þar sem ekki náðist að gera ákæru úr garði svo fullnægjandi þætti fyrir 2. desember sem hafði verið ráðgerður upphafsdagur málflutnings fyrir héraðsdómi. Ljósmynd/Atli Steinn Guðmundsson

„Aðalmeðferðin var bara sett á dagskrá of snemma, ákæran er ekki tilbúin hjá ríkissaksóknara og við náum ekki að hafa þetta tilbúið svona snemma. Ákærði þarf líka sinn tíma til að stilla upp vörn gagnvart hugsanlega mjög þungri ákæru.“

Þetta segir Torstein Lindquister, héraðssaksóknari í Troms og Finnmörku, í samtali við mbl.is í morgun, eftir að ákveðið var að fresta aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Gunnari Jóhanni Gunnarssyni, sem grunaður er um að hafa orðið hálfbróður sínum, Gísla Þór Þórarinssyni, að bana í Mehamn í Noregi að morgni 27. apríl.

Upphafsdagur aðalmeðferðar fyrir Héraðsdómi Austur-Finnmerkur í Vadsø hafði verið ráðgerður mánudagur 2. desember en nú er útlit fyrir að málflutningur fyrir héraðsdómi hefjist ekki fyrr en á vordögum 2020, í fyrsta lagi í febrúar herma heimildir mbl.is.

„Orsök þess að við lendum í þessari stöðu er að búið var að ákveða upphafsdag fyrir héraðsdómi löngu áður en rannsókn málsins var lokið,“ útskýrir Lindquister, „svo lenda menn bara í tímahraki með ákæruna sem þarf að fara gegnum þrjú embætti, lögregluna, héraðssaksóknara og ríkissaksóknara. Aðilar féllust á það í sameiningu að engin efni væru til að hefja málflutning í viku 49 [mánudaginn 2. desember],“ segir saksóknari enn fremur.

mbl.is