35 börn látin úr mislingum á Samóa-eyjum

Hjúkrunarkona gefur barni mislingasprautu. Mynd úr safni.
Hjúkrunarkona gefur barni mislingasprautu. Mynd úr safni. AFP

Alls eru 39 látn­ir í misl­ingafar­aldri á Samóa­eyj­um og eru 35 þeirra börn undir fjögurra ára aldri. Er það mat Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) að verulegur samdráttur í bólusetningum, sem m.a. megi rekja til andstæðinga bólusetninga, hafi gert eyjuna viðkvæma fyrir „risafaraldri“.

Stjórnvöld lýstu yfir faraldri um miðjan október og hafa þegar um 3.000 af 200.000 íbúum eyjanna greinst með mislinga. Fjöldi látinna hefur farið hækkandi undanfarna daga, en misl­inga­veir­an er mjög smit­andi og berst milli manna með úða frá önd­un­ar­fær­um (t.d. hósta og hnerra).

Guardian hefur eftir Kate O‘Brien, yfirmanni bólusetningasviðs WHO, að ástæða hraðrar útbreiðslu sjúkdómsins sé hversu lágt hlut­fall íbúa, eða um 28-30%, hafa verið bólu­sett­ir. Í fyrra höfðu aðeins 31% barna undir fimm ára aldri verið bólusett gegn mislingum. „Þegar mislingar berast til slíks lands er risastór hópur fólks sem er ekki ónæmur,“ sagði O‘Brien. Fyrir aðeins fjórum árum var bólusetningahlutfall íbúa hins vegar 84%.

Bólusetning gegn mislingum gefur um 95% vörn.
Bólusetning gegn mislingum gefur um 95% vörn. AFP

Um tíma var hætt að bólu­setja á eyj­un­um í fyrra eft­ir að tvö börn lét­ust eft­ir að hafa verið bólu­sett. Rann­sókn leiddi í ljós að hjúkr­un­ar­fræðing­ar höfðu fyr­ir mis­tök gefið börn­un­um rangt bólu­efni, en vegna hræðslu og van­trausts for­eldra á heil­brigðis­kerf­inu hætti fólk að þora með börn sín í bólu­setn­ingu.

O’Brien segir hópa sem eru mótfallnir bólusetningum líka hafa kynt undir þessum ótta með herferðum á samfélagsmiðlum. Kvaðst hún harma það „og nú hefur það leitt til útkomu sem hægt er að mæla í lífum barnanna sem létust með útbreiðslunni,“ sagði hún.

Að sögn Ian Norton hjá neyðarteymi WHO er hópbólusetning eina leiðin til að ná stjórn á faraldrinum og hefur UNICEF, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sent 110.000 skammta af bóluefni gegn mislingum til Samóa-eyja með hópi heilbrigðisstarfsfólks frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi sem aðstoða við bólusetninguna.

mbl.is