Sendiherra sakaður um ósæmilega hegðun

Gordon Sondland sést hér bera vitni fyrir þingnefndinni í síðustu …
Gordon Sondland sést hér bera vitni fyrir þingnefndinni í síðustu viku. AFP

Gordon Sondland, sendi­herra Banda­ríkj­anna hjá Evr­ópu­sam­band­inu, hefur verið sakaður um ósæmilega hegðun gagnvart þremur konum. Þetta á að hafa átt sér stað áður en hann varð sendiherra en fjallað er um málið í tímaritinu Portland Monthly og Pro Publica.

Á þeim tíma var hann búsettur í Norðvesturríkjum Bandaríkjanna og rak hótel í Portland og Seattle. Sondland neitar ásökunum kvennanna og segir að konurnar komi fram með þessar ásakanir nú vegna hlutdeildar hans í rannsókn á inngripum Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, í Úkraínu. „Ásakanirnar um að ég hafi þuklað á þeim og kysst eru skáldskapur og ég tel að þeim sé plantað í pólitískum tilgangi. Ekkert er hæft í þessu,“ segir Sondland.

Eigandi tímaritsins sem flutti fréttina

Konurnar segja að hann hafi látið það bitna á þeim í starfi að hafa hafnað kynferðislegum þreifingum hans. Hann hafi gert það með ósæmilegu orðbragði við þær á vinnustað. Hætt við fyrirhugaðar fjárfestingar og dregið sig úr stuðningi sem hann hafði áður heitið. Ein þeirra, Nicole Vogel, segist hafa hitt Sondland yfir kvöldverði árið 2003 þar sem átti að ganga frá fjárfestingu hans í nýju tímariti hennar. 

Vogel er eigandi tímaritsins Portland Monthly sem birti ásakanirnar á hendur Sondland. Í tímaritinu kemur fram að hún hafi ekki haft ritstjórnarleg afskipti af fréttinni og unnið hafi verið með ProPublica sem nýtur virðingar fyrir fréttaflutning sinn.

Vogel segir að eftir kvöldverðinn hafi hún farið með Sondland á eitt af hótelum hans og hann boðið henni að skoða hótelherbergi. Síðan hafi hann beðið hana um faðmlag en í stað þess hafi hann reynt að kyssa hana. Hún forðaði sér undan kossinum og yfirgaf hótelið. Síðar hafi hún fengið tölvupóst frá Sondland þar sem hann breytti skilyrðum fyrir fjárfestingunni. 

Önnur kona, Jana Solis, segist hafa hitt Sondland árið 2008 þegar hún var að leita að starfi sem sem sérfræðingur í öryggismálum. Þegar hann bauð henni vinnu hafi hann nefnt hana „nýja hótelskvísu“ (my new hotel chick) og slegið hana í rassinn. Hann hafi síðar boðið henni heim til þess að meta listaverkaeignina en síðan berað sig fyrir framan hana. Solis segir að einu sinni hafi hann beðið hana um að ástandsmeta íbúð í hans eigu og reynt að kyssa hana. 

Sú þriðja, Natalie Sept, starfaði á skrifstofu stjórnmálamanns í Portland sem Sondland studdi fjárhagslega. Eftir að hafa verið kynnt af yfirmanni hennar bauð Sondland henni í mat þar sem ræða átti starfstækifæri. Hann bað hana um að faðma sig í lok kvölds og reyndi að þvinga hana til að kyssa sig.

Gordon Sondland, sendi­herra Banda­ríkj­anna hjá Evr­ópu­sam­band­inu, sagði í vitn­is­b­urði sín­um í síðustu viku að Trump hefði gert hon­um að setja sig í sam­band við Rudy Giuli­ani varðandi sam­skipti Banda­ríkj­anna og Úkraínu. „Þetta olli okk­ur von­brigðum, en það var skip­un for­set­ans að við nýtt­um Giuli­ani,“ sagði Sond­land og gaf í skyn að ekk­ert yrði af til­raun til að koma á fundi for­set­anna tveggja nema orðið yrði við skip­un Trumps um aðild Giuli­an­is.

mbl.is