Trump vill að „nornaveiðum“ linni nú þegar

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Viðbrögð Donalds Trump Bandaríkjaforseta við vitnisburði sendiherra Bandaríkjanna hjá Evrópusambandinu í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í dag, hafa verið þau að lýsa því yfir að vitnisburðurinn hafi hreinsað hann af ásökunum demókrata. Nú eigi rannsókninni að vera lokið og það þurfi ekki að ræða frekar.

„Nornaveiðunum er nú LOKIÐ!“ tísti forsetinn á Twitter-síðu sinni í kvöld og lagði þar áherslu á símtal sem sendiherrann, Gordon Sondland, lýsti fyrir þingmönnum fulltrúadeildarinnar í dag.

Í þessu símtali, að sögn Sondland, sagði forsetinn ítrekað að hann „vildi ekkert“ frá Úkraínu, engan greiða gegn endurgjaldi, quid pro quo. Forsetinn var með þessa punkta úr vitnisburði Sondlands rækilega skrifaða niður á minnisblað er hann hitti fréttamenn fyrir utan Hvíta húsið í dag.


Þetta var þó einungis afar afmarkaður hluti af vitnisburði Sondlands og sendiherrann, sem er, eða allavega var, yfirlýstur stuðningsmaður Trumps og veitti framboði hans veglegan fjárstyrk fyrir kosningarnar 2016, lýsti því líka fyrir þingnefndinni að að það væri honum ljóst að forsetinn hefði haft einbeittan áhuga á því að fá stjórnvöld í Úkraínu til þess að lýsa því yfir opinberlega að þau ætluðu að rannsaka pólitíska andstæðinga hans.

Samkvæmt fréttum New York Times og fleiri miðla í kvöld telja demókratar að Sondland hafi með orðum sínum frammi fyrir þingnefndinni í dag styrkt stoðir rannsóknarinnar á hendur Trump.

Sondland sendiherra frammi fyrir þingnefndinni í dag.
Sondland sendiherra frammi fyrir þingnefndinni í dag. AFP

Adam B. Schiff, þingmaður demókrata og formaður nefndarinnar, sagði við fjölmiðla að vitnisburður Sondland væri á meðal merkustu sönnunargagnanna sem fram hefðu komið í málinu til þessa og almennt virðast stjórnmálaskýrendur líta á vitnisburð sendiherrans sem nokkuð högg fyrir Bandaríkjaforseta, fremur en hitt, að rannsókn þingsins ætti nú að vera lokið.

Adam Schiff segir að hann telji vitnisburð Sondland vera á …
Adam Schiff segir að hann telji vitnisburð Sondland vera á meðal sterkustu sönnunargagnanna gegn forsetanum til þessa. AFP
mbl.is