Muscat hyggst segja af sér

Joseph Muscat.
Joseph Muscat. AFP

Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, greindi frá því í sjónvarpsávarpi í kvöld að hann muni segja af sér sem forsætisráðherra í byrjun nýs árs. Ákvörðunin tengist harðvítugum deilum í heimalandinu í tengslum við rannsókn á dauða blaðakonunnar Daphne Caruana Galizia, sem var myrt fyrir tveimur árum. 

Muscat sagði að hann myndi biðja Verkamannaflokkinn, sem situr í stjórn, að hefjast handa við að finna arftaka hans í embætti sem myndi taka við 12. janúar. 

Mótmælendur hafa krafist þess að Muscat segir tafarlaust af sér í tengslum við morðrannsóknina. Galizia lést árið 2017 eftir að sprengju hafði verið komið fyrir í bifreið hennar, en hún hafði verið að rannsaka meinta spillingu meðal hátt settra kaupsýslu- og stjórnmálamanna, að því er segir á vef BBC.

Í gær var kaupsýslumaður, sem er sagður tengjast hátt settum embættismönnum í ríkisstjórn landsins, ákærður fyrir aðild að morðinu. 

Muscat hefur verið við völd undanfarin sex ár, en hann hefur tvívegis staðið uppi sem sigurvegari í þingkosningum á Möltu, en í bæði skiptin hlaut flokkur hans mikinn meirihluta atkvæða. Hann hefur verið forsætisráðherra á miklu hagvaxtarskeiði í sögu landsins auk þess sem hann hefur unnið að samfélagslegum umbótum á Möltu, sem er minnsta aðildarríki ESB. 

„Malta þarf að hefja nýjan kafla og aðeins ég get gefið merki um þá breytingu,“ sagði Muscat í dag.

Hann tók ákvörðunina í kjölfar fjögurra klukkustunda fundar sem hann átti með þingflokki Verkamannaflokksins. Þar lýstu þingmennirnir yfir fullum stuðningi við ákvörðun ráðherrans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert