„Eins og inngangurinn að helvíti“

Enginn býr á Hvítueyju en talið er að um 50 …
Enginn býr á Hvítueyju en talið er að um 50 manns hafi verið á eyjunni, sem er vinsæll viðkomustaður ferðamanna, þegar gosið hófst. AFP

Eldgosið á Hvítueyju á Nýja-Sjálandi sem hófst í dag er það mannskæðasta í 25 ár. Talið er að hátt í 30 manns séu látnir. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði við Háskóla Íslands, segir eldgosið sem slíkt ekki óvænt en tímasetningin og hversu skyndilega gosið hófst hafi komið flestum að óvörum. Sjálfur hefur hann komið að gígnum og lýsir honum eins og inngangi að helvíti.

Nýsjálenska lögreglan telur að um 30 manns, sem tókst ekki að koma sér frá Hvítueyju (e. White Island) þegar skyndilegt eldgos hófst þar í dag, séu látnir. Tuttugu og þremur var bjargað frá eyjunni eftir að gosið hófst en fimm þeirra er látin og hin eru með áverka, sum alvarleg brunasár. 

Eldfjallið gerði vart við sig í síðustu viku og greindu jarðvísindamenn frá því að meiri líkur en minni væru á gosi. Viðbúnaðarstig var þó einungis hækkað úr einum í tvo. Eldgosið hófst klukkan tvö eftir hádegi að staðartíma, eða um klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma. Hvítaeyja er vinsæl ferðamannaeyja og talið er að um 50 manns hafi verið á eyjunni þegar eldsumbrotin hófust. 

Gosmökkurinn nær allt að 3,6 kílómetra upp í himininn.
Gosmökkurinn nær allt að 3,6 kílómetra upp í himininn. AFP

„Byggt á þeim upplýsingum sem við höfum teljum við að enginn sem varð eftir á eyjunni hafi komist lífs af. Lögreglan vinnur hörðum höndum að því að fá fjölda látinna staðfestan,“ sagði John Tims, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður björgunaraðgerða á eyjunni, á fréttamannafundi fyrir skömmu. Mikið öskufall og hætta á frekari eldvirkni hamla björgunarstarfi á eyjunni. Öskuský nær allt að 3,6 kílómetra upp í himininn og því fylgja eitraðar lofttegundir. „Ég verð að hugsa um öryggi lögreglumanna og björgunarmanna,“ sagði Tims. 

Mynd­ir úr ör­ygg­is­mynda­vél­um sýna að fólk var á gangi í gígn­um á eld­fjall­inu rétt áður en gosið hófst. Jarðvísindastofnun Nýja-Sjálands hefur fjarlægt myndefnið af heimasíðu stofnunarinnar af virðingu við hina látnu. 

Fólki sést bregða fyrir við gíginn rétt áður en eldgosið …
Fólki sést bregða fyrir við gíginn rétt áður en eldgosið hófst og allt varð svart. Skjáskot/Jarðvísindastofnun Nýja-Sjálands

Eldfjallaeyja sem rís 300 metra upp úr sjónum

Hvítaeyja er skammt frá Norður­eyju og er eld­fjallið þar eitt virk­asta eld­fjall Nýja-Sjá­lands. Eyjan er ekki nema tveir kílómetrar í þvermál og segir Þorvaldur að hún sé í raun ekkert annað en toppgígur á eldfjalli sem rís næstum því 2000 metra frá sjávarbotni. „Við sjáum bara efstu 300 metrana af eldfjallinu, það er eyjan.“ 

Þorvaldur segir að ekki sé um stórt gos að ræða heldur lítið sprengigos, sem verða mjög reglulega á eyjunni. „Kvikan sem kemur upp í gegnum gosásinn kemur mjög nálægt yfirborði og þar byggir hún upp gasþrýsting og svo verða nokkurs konar hvellir. Gjóskan er heit, að nálgast þúsund gráður og þetta setur mikið af gasi út þar sem toppgígurinn er þar sem fólk var á gangi var meira og minna súrefnislaust þannig að þetta er ekki góður staður til að vera á þegar kemur gos, það er alveg á hreinu.“

„Svolítið „spooky“ staður“

Hann segist þó vel skilja af hverju fólk vilji fara þangað. Slíkt hefur hann sjálfur gert og gisti meira að segja í tjaldi í heila viku. „Þetta er magnaður staður. Fyrst þegar ég kom þangað fannst mér þetta vera eins og inngangurinn að helvíti. Maður átti von á því að vinur okkar þarna að neðan myndi hoppa fram. Þetta er svolítið „spooky“ staður,“ segir hann og bætir við að fólk verði að gera sér grein fyrir áhættunni sem það er að taka með því að ferðast til Hvítueyjar. 

Hópur Ástrala er meðal þeirra sem náði ekki að forða sér af eyjunni, ásamt Ný-Sjálendingum og farþegum á skemmtiferðaskipinu Ovation of the Seas sem er í höfn skammt frá eyjunni. Flugbann er yfir eyjunni en liðsmenn nýsjálenska hersins flugu yfir fyrr í dag en urðu ekki varir við lífsmark. 

23 var bjargað frá eyjunni eftir að gosið hófst.
23 var bjargað frá eyjunni eftir að gosið hófst. AFP

„Fólkið er svo nálægt upptökunum og á í raun enga undankomuleið. Þú hleypur ekkert í burtu frá þessu. Þetta er smágos en það getur verið mjög mannskætt og það má alveg setja spurningarmerki við ferðamennskuna sem þarna er,“ segir Þorvaldur. 

Eldgosið mun að öllum líkindum vara stutt. „Sennilega fer að krauma aðeins í gígvatni í innsta gígnum. Gosrásin er langlíf og kvikan seitlar í gegn og þannig mun hún halda áfram að tappa af sér reglulega. En það eru engin teikn á því að von sé á stóru gosi þarna,“ segir Þorvaldur.  

Hvítaeyja er agnarsmá eyja, aðeins tveir kílómetrar í þvermál, skammt …
Hvítaeyja er agnarsmá eyja, aðeins tveir kílómetrar í þvermál, skammt frá Norðureyju á Nýja-Sjálandi. Kort/Google
mbl.is