„Í hreinskilni sagt er ég skelfingu lostinn“

SAUL LOEB

„Ég sat inni í 25 ár. Nú berst ég gegn öðrum dómi; að vera vísað úr landi,“ segir Colin Absolam sem var látinn laus úr fangelsi í júní eftir að hafa afplánað aldarfjórðung í bandarísku fangelsi fyrir manndráp. Hann segist vart muna eftir fæðingarstað sínum, Jamaíku, og hann á enga fjölskyldu þar. „Í hreinskilni sagt er ég skelfingu lostinn,“ segir hann í samtali við vefinn Marshall Project.

Colin Absolam var 11 ára þegar hann flutti frá afa sínum og ömmu í Saint Mary Parish á Jamaíku til móður sinnar sem bjó þá í einu herbergi í Bronx í New York. Hann framdi morð 19 ára gamall og fékk reynslulausn fyrr á árinu. Nú eru allar líkur á að hann verði sendur til Jamaíku, eyju sem hann hefur ekki séð í meira en þrjá áratugi.

Samkvæmt bandarískum lögum er honum sjálfkrafa vísað úr landi vegna alvöru glæpsins sem hann framdi nema ríkisstjórinn í New York, Andrew Cuomo, veiti honum sakaruppgjöf.

Hann óskaði formlega eftir því í síðasta mánuði með aðstoð frá laganemum í New York. Hann er núna í haldi í innflytjendabúðum í Buffalo, í nokkur hundruð mílna fjarlægð frá fjölskyldu sinni í New York.

Í viðtalinu lýsir hann erfiðum unglingsárum í Suður-Bronx á níunda áratug síðustu aldar. Hann hafi verið öðruvísi; bæði talað og klætt sig ólíkt öðrum krökkum og því lagður í einelti. Honum hafi verið kennt um allt, ef það brutust út slagsmál var ábyrgðin alltaf hans. Mamma hans, sem sinnti tveimur störfum, þurfti ítrekað að koma í skólann og sækja hann.

„Bronx varð að lokum eins og heimili mitt þegar ég var í menntaskóla. Ég var búinn að læra að slást og eignaðist eldri vini. Það var enginn sem sagði við mig lengur: Farðu aftur heim á bananabátinn.“

Absolam segist hafa átt tvær kærustur á þessum tíma og þær hafi báðar orðið þungaðar á lokaári hans í menntaskóla. Launin fyrir vinnu á skyndibitastað dugðu ekki til framfærslu og hann hætti því í skóla og fór að selja fíkniefni. Þegar móðir hans komst að hinu sanna var hún afar ósátt og hann flutti að heiman og bjó í bíl með kærustunni.

23. júní 1992, tveimur mánuðum áður en eldra barnið átti að fæðast, skipaði eldri og stærri fíkniefnasali honum að hætta að selja á sömu slóðum og hann var á. Þegar Absolam hlýddi ekki sló hinn hann. Svona gekk þetta áfram og endaði með því að Absolam skaut hinn með byssu sem félagi hann átti. Að eigin sögn var þetta slysaskot.

„Ég hélt að ég væri fórnarlambið og hafnaði tilboði um að játa og fá 71⁄2-14 ára dóm og krafðist réttarhalda. Ég var næstu þrjú árin á Rikers Island að bíða eftir réttarhöldunum og síðan var ég eitt ár laus gegn tryggingu. Loksins þegar ég var 24 ára gamall var ég dæmdur fyrir manndráp og dæmdur í 25 ára til lífstíðarfangelsi,“ segir Colin Absolam í viðtalinu.

Hann segir að fangelsisvistin hafi í raun verið blessun því í Sing Sing-fangelsinu hafi hann kynnst mönnum sem tóku ábyrgð á gjörðum sínum og nýttu tímann sem þeir dvöldu í fangelsinu til að bæta líf annarra í fangelsinu. Þeir sáu eitthvað við Colin Absolam og studdu hann í að fara í meðferð og nám. Hann lauk menntaskólanámi og fór síðan í fjarnám í atferlisfræði við Mercy College. Í fyrra lauk hann meistaranámi við guðfræðideild New York-háskóla.

Á meðan hann var í fangelsi starfaði hann við fræðslumál innan fangelsisins og þegar hann losnaði í júní hélt hann að leið sín lægi til New York enda hafði hann fengið inngöngu í kennslufræðinám við Columbia-háskóla. Þess í stað var hann sendur í innflytjendabúðir í Buffalo sem hann segir mun harðneskjulegri stað en fangelsisvist. Þarna eru tveir í hverjum klefa og þeir læstir inni nánast allan sólarhringinn. Þó svo fjölskylda hans gæti keyrt í 300 mílur til að heimsækja hann fær hún ekki að hitta hann. Einu samskiptin fara fram í gegnum símtæki og engin snerting leyfð.

Hann segist óttast hvað verði um sig á Jamaíku. Þar þekki hann engan þar sem faðir hans, afi og amma séu öll látin. Allar líkur séu á að hann endi sem útigangsmaður í Kingston þar sem hann á engan að, er ekki með vinnu og þar að auki húsnæðislaus.

Hann vilji kynnast börnum sínum utan fangelsisins en hann á tvö börn, dóttur sem á tvö börn og son sem hann óttast mjög um. Sá hefur átt afar erfitt eftir að hafa horft á bróður sinn skotinn til bana 17 ára að aldri. „Þegar ég var í fangelsi að veita öðrum föngum ráðgjöf og upplýsa börn var ég ófær um að vernda syni mína.“

Absolam, sem er 46 ára gamall, segir að mörgum finnist kannski eðlilegt að hann verði sendur aftur til Jamaíku vegna þess sem hann gerði. En hann hafi afplánað sína refsingu og snúið til betri vegar. Hann hafi tekið ábyrgð á eigin gjörðum og reynt að bæta samfélaginu þann skaða sem hann vann.

Grein Marshall Project í heild

mbl.is