Átján látnir eftir eldgosið á Nýja-Sjálandi

Mike Clement aðstoðaryfirlögregluþjónn ræðir við fjölmiðla.
Mike Clement aðstoðaryfirlögregluþjónn ræðir við fjölmiðla. AFP

Átján eru látnir eftir eldgosið sem varð á Hvítueyju á Nýja-Sjálandi en lík tveggja þeirra hafa ekki fundist.

Lögreglan á Nýja-Sjálandi greindi frá þessu.

Leit hefur staðið yfir að líkunum, bæði í sjó og á landi, en hún hefur ekki skilað árangri. Að sögn Mikes Clements aðstoðaryfirlögregluþjóns eru „allar líkur“ á því að líkin hafi endað í sjónum eftir að hafa verið í straumnum þar sem þau sáust síðast á mánudaginn.

Frá leitinni að líkunum.
Frá leitinni að líkunum. AFP

„Leitarhóparnir eru óánægðir. Við skiljum fullkomlega hversu erfitt þetta er fyrir aðstandendur sem vilja að líkin finnist,“ sagði Clement.

47 manns voru á eyjunni, sem er vinsæll ferðamannastaður, þegar eldgosið varð. 26 eru á sjúkrahúsi, þar af 20 alvarlega slasaðir.

AFP

Lögreglan hefur birt nöfn sjö fórnarlamba sem borin hafa verið kennsl á. Á meðal þeirra er nýsjálenskur leiðsögumaður, Tipene James Te Rangi Ataahua Maangi, sem var 24 ára. Fjórir voru ástralskir, eða þau Zoe Ella Hosking, 15 ára, stjúpfaðir hennar Gavin Brian Dallow, 53 ára, Anthony James Langford, 51 árs, og Karla Michelle Mathews, 32 ára.

Þeir Matthew Robert Hollander, 13 ára, og Berend Lawrence Hollander, 16 ára, voru bandarískir ríkisborgarar en búsettir á Nýja-Sjálandi.

mbl.is