Hvernig tókst Carlos Ghosn að flýja?

Miklar vangaveltur eru uppi um það hvernig Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóra bifreiðaframleiðandans Nissan, tókst að flýja stofufangelsi í Japan í lok síðasta árs, en þar hefur hann verið sakaður um stórfelld skattsvik sem hann neitar.

Hefur jafnvel verið gengið svo langt að gera því skóna að Ghosn hafi falið sig í stórum hljóðfærakassa og aðstoðarmenn hans dulbúið sig sem tónlistarmenn. Hann hafi síðan verið fluttur um borð í einkaþotu sem flutti hann til Líbanons. Lögmenn Ghosn segja flótta hans hafa komið sér gjörsamlega í opna skjöldu.

Eiginkona Ghosn, Carole sem sögð er hafa tekið virkan þátt í að skipuleggja og framkvæma flótta hans, hefur hins vegar vísað þeirri kenningu að bug. Hins vegar er talið víst að Ghosn hafi farið með einkaþotu frá Japan til Tyrklands og áfram til Líbanons.

Framvísaði frönsku vegabréfi í Líbanon

Talið er að skipulagning flóttans hafi tekið vikur ef ekki mánuði og fjöldi manns hafi komið að henni. Ghosn birtist skyndilega í lok ársins í Líbanon, hvar hann ólst upp, þar sem hann lýsti því yfir að hann hefði flúið óréttlæti og pólitískar ofsóknir í Japan.

Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóri Nissan.
Carlos Ghosn, fyrrverandi forstjóri Nissan. AFP

Forstjórinn fyrrverandi, sem fæddist í Brasilíu en er af líbönskum uppruna, er með brasilískt, líbanskt og franskt ríkisfang. Hann hefur sótt um alþjóðlega vernd í Líbanon hvar hann nýtur mikillar hylli samkvæmt fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC.

Þrjú vegabréf Ghosn eru í vörslu lögmanna hans en dómstóll veitti honum heimild til þess að halda fjórða vegabréfinu, frönsku vegabréfi, til þess að hann gæti ferðast innanlands í Japan og sýnt fram á að hann hefði tímabundið dvalarleyfi í landinu.

Ólíklegt að Ghosn verði framseldur

Fjórða vegabréfið átti að vera í læstri hirslu og aðgangsorðið að henni að vera í höndum lögmanna Ghosn. Engar upplýsingar liggja fyrir um að Ghosn hafi yfirgefið Japan en hins vegar er vitað að hann framvísaði frönsku vegabréfi við komuna til Líbanons.

Málið þykir hið vandræðalegasta fyrir yfirvöld í Japan og hefur umfangsmikil rannsókn hafist á því hvernig það gat gerst að Ghosn tókst að flýja landið. Búist er við að farið verði fram á framsal Ghosn frá Líbanon en hins vegar eru taldar litlar líkur á að af því verði þar sem enginn framsalssamningur er í gildi á milli Japans og Líbanon.

Frönsk stjórnvöld hafa þegar lýst því yfir að þau muni ekki framselja Ghosn til Japans komi hann til Frakklands. Þá hafa stjórnvöld í Líbanon hafnað fréttum í fjölmiðlum um að forseti landsins, Michel Aoun, hafi fagnað Ghosn við komuna til landsins.

mbl.is