Tvö börn létust þegar skólarúta valt

AFP

Tvö börn létu lífið og tuttugu slösuðust þegar skólarúta valt og lenti utan vegar í morgun skammt frá bænum Berka í Thüringen-ríki í Þýskalandi.

Fram kemur í frétt AFP að hálka hafi verið á veginum þar sem rútan fór út af og endaði í skurði. Þá hafi þykk þoka verið á svæðinu. Þýskir fjölmiðlar segja að rútan hafi verið á leið með börnin í grunnskólann sinn þegar slysið átti sér stað.

Fimm barnanna eru alvarlega slösuð en hin með minni háttar áverka. Börnin sem létust voru bæði átta ára gömul. Lögreglan segir málið verða rannsakað.

Hliðstætt slys átti sér stað fyrir viku þar sem níu börn slösuðust skammt frá landamærum Þýskalands að Austurríki þegar skólarútu var ekið á tré.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert