„Þeir hentu lifandi börnum inn í ofnana“

Eftirlifendur helfararinnar komu saman í Auschwitz í dag.
Eftirlifendur helfararinnar komu saman í Auschwitz í dag. AFP

„Þeir hentu börnum lifandi inn í ofnana. Þegar þú hefur horft á það og þú spyrð hvort ég geti sofið, sofið? Hvernig á ég að geta sofið?“ „Við viljum að næsta kynslóð geri sér grein fyrir hvað við gengum í gegnum og að þetta eigi aldrei að gerast aftur.“ Þetta er meðal þess sem fólk sem komst lífs af úr Auschwitz segir en í dag er þess minnst að 75 ár eru liðin frá frelsun útrýmingarbúðanna.  

Blómsveigar voru lagðir við dauðavegginn í Auschwitz en þar var …
Blómsveigar voru lagðir við dauðavegginn í Auschwitz en þar var fólki raðað upp og það skotið til bana. AFP

Um 200 eftirlifendur taka þátt í minningarathöfninni í Auschwitz í Póllandi í dag ásamt stjórnmálaleiðtogum og konungbornu fólki víða að.

Alberto Israel, sem er 93 ára gamall gyðingur búsettur í Brussel, er meðal þeirra. Hann var sendur til Auschwitz árið 1944 þegar hann var 17 ára gamall. Hann lýsti því fyrir fréttamönnum Sky News hvernig hann horfði á þegar börnum var varpað inn í gasofnana. Það versta sé að hafa ekki getað komið í veg fyrir þetta. Öll fjölskylda Israels var drepin af nasistum. Foreldrar hans og bróðir voru drepin í Auschwitz, í fangabúðum nasista þar sem karlar, konur og börn voru svelt, notuð sem tilraunadýr og drepin. Þetta var staður þar sem engin mörk voru fyrir illskunni. 

Helfararinnar minnst í dag.
Helfararinnar minnst í dag. AFP

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að ekki megi líta svo á að helförin hafi einungis verið geðbiluð illvirki nasista, heldur hátindur aldagamals gyðingahaturs, að því er fram kemur á vef upplýsingaskrifstofu SÞ.

„Það er hættuleg villa að halda að helförin hafi einfaldlega verið árangur geðbilunar glæpahóps nasista. Þvert á móti var helförin hátindur þess sem nú er kallað gyðingahatur eða árþúsunda gamals haturs þar sem gyðingar voru gerðir að blórabögglum og mismunað.“

Aðalframkvæmdastjórinn António Guterres lét þessi orð falla í ávarpi í tilefni af alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb helfararinnar. Hann er haldinn 27. janúar ár hvert en þann dag árið 1945 frelsaði Rauði herinn Auschwitz-Birkenau-útrýmingarbúðirnar í Póllandi úr höndum nasista og batt þar með endi á Helförina.

Í ávarpi sínu minnir hann á að jafnvel eftir að hörmungar helfararinnar urðu öllum ljósar, sé gyðingahatur enn þrálátt.

AFP

„Stundum tekur það á sig nýjar myndir og finnur sér farvegi með nýrri tækni, en það er alltaf sama gamla hatrið. Við megum aldrei sofna á verðinum. Undanfarin ár höfum við horft upp á fjölgun árása sem rekja má til gyðingahaturs bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, sem er hluti af ógnvekjandi uppgangi útlendingahaturs, hommahaturs, mismununar og haturs af ýmsu tagi. Jafnvel nasismanum vex fiskur um hrygg, stundum opinskátt, stundum í dulargervi.”

Minning og menntun er snar þáttur í viðleitni okkar til að hindra að sagan endurtaki sig, því fávísi skapar frjóan jarðveg fyrir rangar frásagnir og ósannindi. Við tengjumst kjarnanum í sammannlegum gildum á borð við sannleika, virðingu, réttlæti og samlíðan með því að skilja sögu okkar. Helförin markaði þáttaskil í mannkynssögunni og heimurinn brást við með því að segja: „Aldrei aftur.“

Batcheva Dagan var fangi númer 45554.
Batcheva Dagan var fangi númer 45554. AFP

Fólkið sem enn er á lífi og er komið saman í bænum Oświęcim, þar sem útrýmingarbúðirnar voru, varar við því sem er að eiga sér stað — fjölgun árása þeirra sem eru blindaðir af gyðingahatri beggja vegna Atlantsála.

Með bláröndóttar húfur og trefla gengur hópurinn undir svarta járnhliðið með áletruninni Arbeit macht Frei. 

AFP

David Marks, sem er 93 ára gamall gyðingur frá Rúmeníu, biður komandi kynslóðir að gleyma ekki. „Við viljum að næstu kynslóðir viti hvað við gengum í gegnum og að það eigi aldrei að gerast aftur,“ segir Marks. 35 úr fjölskyldu hans voru drepnir í Auschwitz.

Frá því um mitt ár 1942 fluttu nasistar gyðinga víðs vegar að úr Evrópu í sex fangabúðir; Auschwitz-Birkenau, Belzec, Chelmno, Majdanek, Sobibor og Treblinka.

Arbeit macht Frei-hliðið í Auschwitz.
Arbeit macht Frei-hliðið í Auschwitz. AFP

„Þetta snýst um þá sem lifðu af, ekki stjórnmál,“ segir Ronald Lauder, yfirmaður heimsþings gyðinga. Hann segir að á sama tíma og gyðingahatur vex í heiminum sé það von þeirra að fortíð þeirra sem lifðu af verði ekki framtíð barna þeirra eða barnabarna. 

Á meðan heimurinn vissi í raun ekki hvaða hryllingur átti sér stað í útrýmingarbúðum nasista fyrr en Rauði herinn kom til Auschwitz fyrir 75 árum hafði forystusveit bandamanna fengið löngu fyrr nákvæmar upplýsingar um þjóðarmorð á gyðingum. Í desember 1942 afhenti ríkisstjórn Póllands, sem var í útlegð í London, bandamönnum skjal undir heitinu „Fjöldamorð á gyðingum í Póllandi herteknu af Þjóðverjum“. Þar var að finna nákvæmar lýsingar á helförinni þar sem Pólverjar lýstu því sem gerðist. En skjalinu var stungið undir stól og fékk litla sem enga athygli. 

Szmul Icek sýnir fanganúmerið frá Auschwitz, 117568.
Szmul Icek sýnir fanganúmerið frá Auschwitz, 117568. AFP

Norman Davies, sagnfræðiprófessor í Oxford, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að miklu af þeim upplýsingum sem lagðar voru fram á þessum árum hafi einfaldlega ekki verið trúað. Þrátt fyrir háværar kröfur af hálfu Pólverja og gyðinga um að bandamenn myndu sprengja járnbrautarteinana sem lágu til Auschwitz og annarra útrýmingarbúða taldi herinn mikilvægara að einblína á hernaðarlega mikilvæg skotmörk. Ekki á eitthvað sem tengdist almennum borgurum, segir Davies. Þrátt fyrir að breski herinn hafi flogið yfir búðirnar var honum ekki gert að varpa sprengjum á þær. 

Þeir (bandamenn) vissu hvað var að gerast hérna en þeir gerðu ekkert vísvitandi, segir David Lenga, 93 ára gamall gyðingur, þar sem hann stóð við gaddavírsgirðinguna í Auschwitz þar sem fréttamaður AFP ræddi við hann. Hann segir mikilvægast að mennta og fræða um afleiðingar þess þegar illskan fær að vaxa óhindrað. 

Angela Orosz Richt er sennilega yngst eftirlifenda en hún fæddist …
Angela Orosz Richt er sennilega yngst eftirlifenda en hún fæddist í desember 1944 í Auschwitz. AFP

Angela Orosz, sem er 75 ára gömul og býr í Montreal, er sennilega sú yngsta í hópi eftirlifenda sem taka þátt í athöfninni í dag en móðir hennar fæddi hana í  Auschwitz-Birkenau í desember 1944.

„Ég ólst upp við að skoða myndir af ættingjum og þegar ég spurði um þá var svarið: „Hann er dáinn, hún er dáin. Þegar ég varð eldri var mér sagður sannleikurinn. Að þau hefðu verið myrt.“

Í samtali við Guardian bætir hún við: „Ég hélt því alltaf fram við börnin mín að ég þjáðist ekki af áfallastreituröskun eftir dvölina hérna þangað til dóttir mín spurði hvers vegna við skrældum aldrei kartöflurnar og hentum hýðinu líkt og aðrar fjölskyldur gerðu. Því móðir mín lifði sennilega af vegna kartöfluhýðisins sem hún borðaði og vegna kraftsins úr því var hún fær um að eignast mig og ég lifði af,“ segir Orosz.

Móðir hennar var svo vannærð að fangaverðirnir vissu ekki að hún væri þunguð. Þrátt fyrir það tókst henni að ganga með í níu mánuði en Angela var aðeins rúmar 2 merkur þegar hún fæddist. Hún fæddist 21. desember 1944, aðeins nokkrum vikum eftir að búðirnar voru frelsaðar. Móðir hennar hafði verið flutt í fangabúðirnar hálfu ári áður frá Ungverjalandi. 

Gyðingahatur og ofbeldi gegn minnihlutahópum varð til þess að hún var enn ákveðnari en áður að segja sögu fjölskyldunnar.  

Móðir hennar kom til Auschwitz 25. maí 1944 og hún var send í skálann þar sem læknir búðanna, Josef Mengele, þekktur undir heitinu „engill dauðans“ geymdi tvíbura sem hann notaði við rannsóknir sínar.

„Hún notaði hvað sem var til þess að hylja mig en hún faldi mig,“ segir Orosz.  „Hennar mesti ótti var, þegar hún þurfti fara út og vera við nafnakalla, að rotturnar myndu éta mig og hún fyndi mig ekki þegar hún kæmi aftur. Það er kraftaverk Guðs að henni tókst að vera með mig á brjósti því hún drakk aðeins vatn en samt kom mjólk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina