Krafðist þríleiks í skiptum fyrir hlutverk

Rúm­lega 80 kon­ur hafa sakað Wein­stein um kyn­ferðis­brot.
Rúm­lega 80 kon­ur hafa sakað Wein­stein um kyn­ferðis­brot. AFP

Fyrrverandi kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein krafðist þess að upprennandi leikkona stundaði kynlíf með honum og aðstoðarkonu hans en í staðinn léti hann hana fá hlutverk í kvikmynd. Þetta kom fram í rétt­ar­höld­un­um yfir Weinstein í dag.

Rétt­ar­höld­in í New York snú­ast um brot Wein­stein gegn Mimi Haleyi og Jessicu Mann en brot­in eiga að hafa átt sér stað árin 2006 og 2013.

Leikkonan Dawn Dunning sagði að Weinstein hefði beðið stórleikkonurnar Charlize Theron, Salma Hayek og Uma Thurman um það sama.

Í frétt AFP kemur fram að ekkert bendi til þess að einhver leikkvennanna þriggja hafi samþykkt meinta beiðni Weinstein.

Dunning, sem er fertug, sagði fyrir dómi að hún hefði fyrst hitt Weinstein þegar hún vann sem þjónustustúlka á næturklúbbi í New York árið 2004.

Um vorið 2005 bauð Weinstein Dunning á hótelherbergi til að ræða mögulegt kvikmyndahlutverk en þar misnotaði hann hana kynferðislega.

Hún sagði að Weinstein hefði troðið hendinni á sér undir pilsið sem hún var í og hann hafi reynt að troða fingrunum inn í hana. 

„Ég fraus en hann baðst afsökunar og sagði að þetta myndi ekki gerast aftur,“ sagði Dunning. Tveimur vikum eftir umrætt atvik samþykkti Dunning að hitta hann aftur til að ræða mögulegt kvikmyndahlutverk.

Kvenkyns aðstoðarkona Weinstein tók á móti henni og fylgdi henni upp á hótelherbergi. Þar var Weinstein eingöngu klæddur í slopp og sagði að Dunning fengi hlutverkið ef hún stundaði kynlíf með honum og aðstoðarkonunni.

„Þegar ég fór að hlæja varð hann mjög reiður og sagði að ég myndi aldrei ná langt,“ sagði Dunning.

Verði Weinstein fund­inn sek­ur um gróf­ustu ákæru­liðina á hann lífstíðarfang­elsi yfir höfði sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert