Romney greiðir atkvæði gegn Trump

Mitt Romney.
Mitt Romney. AFP

Mitt Romney, repúblikani og þingmaður öldungadeildar Bandaríkjaþings, ætlar að greiða atkvæði með sakfellingu Donalds Trump Bandaríkjaforseta í réttarhöldunum yfir honum.

„Forsetinn er sekur um að misnota traust almennings á grófan hátt,“ sagði Romney, sem bauð sig fram til forseta árið 2012, í ræðu sem hann hélt í öldungadeildinni.

„Það að spilla kosningum til að halda sér í embætti er mögulega mesta brot sem hægt er að fremja í embætti,“ sagði Romney.

Talið er að hann verði eini repúblikaninn sem greiðir atkvæði með sakfellingu Trump.

Trump er sakaður um að hafa sett Úkraínu­mönn­um það skil­yrði fyr­ir hernaðaraðstoð að þeir hæfu rann­sókn á Joe Biden, fyrr­ver­andi vara­for­seta og póli­tísk­um and­stæðingi Trumps. Trump var í kjöl­farið ákærður fyr­ir embætt­is­brot en mjög ólík­legt þykir að hann verði sak­felld­ur, sér í lagi eft­ir að öld­unga­deild­in hafnaði frek­ari vitna­leiðslum í mál­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert