Ciara veldur usla

Stormurinn Ciara hefur sett allt á hvolf víða í Evrópu og í Bretlandi og Írlandi hefur geisað aftakaveður í allan dag.

Veðrið er einnig slæmt í Frakklandi, Belgíu, Hollandi, Sviss og Þýskalandi. Í Bretlandi eru yfir 30 þúsund heimili án rafmagns en þar fór vindhraðinn í 45 metra á sekúndu í Aberdaron í Wales.

Við Wet Sleddale-stífluna í norðvesturhluta Englands mældist sólarhringsúrkoman 150 millimetrar en mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur á Íslandi kom úr mælinum á Kvískerjum í Öræfum að morgni 10. janúar 2002. Úrkomusólarhringur nær yfir tímann frá kl. 9 morguninn fyrir mælingadag til kl. 9 mælingadags. Þetta voru 293,2 mm og jafngildir því að 293 lítrar af vatni hafi fallið á hvern fermetra lands sólarhringinn næstan á undan

Járnbrautafyrirtæki á Bretlandseyjum hvöttu fólk til þess að sleppa ferðalögum og eitthvað var um að ferðum væri aflýst. Í Perth í Skotlandi slösuðust þrjár manneskjur þegar hluti þaks á krá hrundi í gær. Eins hefur íþróttaviðburðum verið aflýst og Elísabet II. Englandsdrottning ákvað að sleppa því að fara í messu en hún dvelur á sveitarsetri sínu á Englandi, Sandringham.

Flugferðum var aflýst um nokkra flugvelli í Þýskalandi í dag. Þar á meðal Frankfurt, Berlín, München, Köln og Hannover. 

Þýska járnbrautarfyrirtækið, Deutsche Bahn, felldi niður lengri lestarferðir í norðvesturhluta landsins og eins var knattspyrnuleikjum aflýst. 

Aflýsa þurfti 120 flugferðum til og frá Schiphol í Amsterdam í dag og eins var íþróttaviðburðum frestað þar í landi sem og í Belgíu. Aflýsa þurfti um 60 flugferðum um flugvelli í Brussel. 

Á Írlandi urðu 14 þúsund heimili og fyrirtæki rafmagnslaus og eitthvað gekk illa að telja atkvæði en þingkosningar fóru fram þar í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert