Sameinaðar eftir 78 ár

Rússneskar systur hittust í fyrsta skipti í 78 ár nýverið en þær voru skildar að á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. 

Endurfundir þeirra Juliu og Rozalina Kharitonova, sem eru 92 og 94 ára í dag, voru tilfinningaþrungnir en það var rússneska innanríkisráðuneytið sem kom kom þeim saman með aðstoð lögreglu. Ættingjar þeirra fylgdust með tár á hvarmi með því þegar þær kysstust og föðmuðust. „Ég leitaði hennar. Ég var alltaf að leita að henni,“ sagði Rozalina og hélt í hönd systur sinnar. 

Sem unglingar bjuggu systurnar ásamt foreldrum í Stalíngrad, borg sem nú heitir Volgograd. Þar var háð ein blóðugasta baráttan í seinni heimsstyrjöldinni. Þær voru skildar að árið 1942 þegar flytja varð íbúa á brott undan nasistum. 

Yngri systirin, Júlía, sem er fædd árið 1928, fór með móður sinni til borgarinnar Penza, um 500 km norður af Stalíngrad. En Rozalina, sem er fædd árið 1926, var flutt ásamt starfssystkinum í verksmiðju til iðnaðarborgarinnar Chelíabinsk, sem er um 1.400 km norðvestur af Stalíngrad.

Þrátt fyrir aðskilnaðinn misstu þær aldrei vonina um að hittast að nýju en þær hittust í Chelíabinsk eftir að dóttir Júlíu fékk lögregluna til að aðstoða við leitina að Rozalinu.

Rozalina hafði þá þegar reynt að hafa upp á Júlíu í gegnum sjónvarpsþátt um horfna ættingja án árangurs. En lögreglan hafði upp á Rozaliu eftir að hafa fengið upplýsingar um þáttinn.

Rússar minnast þess 9. maí að þá eru liðin 75 ár frá sigri bandamanna á nasistum. Talið er að 27 milljónir hafi týnt lífi í Sovétríkjunum í seinni heimsstyrjöldinni.

Bardaginn um Stalíngrad stóð í hálft ár og gáfust Þjóðverjar upp 2. febrúar 1943. Við Stalíngrad var bundinn endir á möguleika Þjóðverja á að sigra Sovétríkin, og missir manna og herbúnaðar var svo mikill að þeir náðu aldrei að rétta úr kútnum eftir það, segir á Vísindavef Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert