13. febrúar 1945

Gamli bærinn í Dresden í rúst eftir loftárásirnar fyrir 75 …
Gamli bærinn í Dresden í rúst eftir loftárásirnar fyrir 75 árum. Það sem eftir er af Frúarkirkjunni, Frauenkirche, fyrir miðri mynd. Ljósmynd/Wikipedia.org/Bundesarchiv

Seint að kvöldi 13. febrúar 1945, fyrir réttum 75 árum, sátu amerískir stríðsfangar í kjötfrystiklefa í kjallara sláturhúss í borginni Dresden, sjöundu stærstu borg Þýskalands á þeim tíma. Þungar drunur höfðu leyst af hólmi vælandi loftvarnaflautur ofanjarðar. Þá grunaði að árás á borgina stæði yfir en þá óraði ekki fyrir því sem beið þeirra næst þegar þeim var hleypt upp á yfirborð jarðar. Að Dresden væri horfin.

Í hópi stríðsfanganna, sem sátu í kjötklefa sínum á meðan mörg hundruð sprengjuflugvélar sameinaðrar flugsveitar Breta og Bandaríkjamanna dembdu rúmum 3.900 tonnum af farmi sínum yfir Dresden, var rúmlega tvítugur Bandaríkjamaður, fæddur í Indianapolis árið 1922. Þetta var Kurt Vonnegut, síðar rithöfundur, sem átti eftir að rifja atburðina í Dresden upp í skáldsögu sinni Slaughterhouse-Five, eða Sláturhús 5, sem kom út árið 1969 og er sögð frá sjónarhóli hins sérlundaða Billy Pilgrim sem augljóslega er byggður að miklu leyti á persónu höfundarins.

Óvinnandi vegur að grafa líkin

Vonnegut og samfangar hans voru settir í það verkefni, þegar loftárásunum lauk á þriðja degi, að safna líkamsleifum borgarbúa saman á götum úti og koma þeim í fjöldagrafir. Þýsku hermennirnir sem stjórnuðu verkinu sáu þó fljótt að slíkt verk væri óvinnandi vegur vegna fjölda fórnarlambanna og svo fór að sveit hermanna með eldvörpur gekk um götur Dresden og brenndi öll lík sem þeir komust í tæri við.

Þýska ríkisstjórnin lét fjölmiðla sína umsvifalaust gefa það út að 200.000 manns hefðu farist í árásinni á Dresden, sem var og verður ein umdeildasta aðgerð bandamanna í síðari heimsstyrjöldinni. Rétt tala verður aldrei dregin fram í dagsljósið en árið 2004 skipuðu borgaryfirvöld í Dresden rannsóknarnefnd til að áætla eins nákvæma tölu og hægt var. Nefndin skilaði niðurstöðu sinni árið 2010 sem var að á bilinu 22.700 til 25.000 hefðu farist í Dresden 13. – 15. febrúar 1945.

Fyrir utan að Dresden var miðpunktur og þungamiðja járnbrauta- og vegakerfis Þýskalands Hitlers var árásinni á borgina ætlað að lama það sem eftir var af mótstöðuþreki nasista sem þegar var af mjög skornum skammti á útmánuðum 1945. Aðeins örfáum vikum áður hafði hulunni verið svipt af voðaverkunum í Auschwitch-búðunum í Póllandi en Bandaríkjamenn áttu auk þess harma að hefna.

Orrustan í Ardennes

Tveir mánuðir voru liðnir frá upphafi mannskæðustu orrustu Bandaríkjamanna í síðari heimsstyrjöldinni, bardagans við Ardennes í Belgíu, The Battle of the Bulge, þar sem 19.000 bandarískir hermenn féllu á rúmum mánuði. Orrusta þessi var síðasta tilraun Þjóðverja til að snúa nær tapaðri styrjöld sér í hag, sem var vonlaus barátta, en Hitler lét slag standa, frávita af vænisýki og bræði eftir að hans eigin mönnum, Claus Schenk von Stauffenberg og hópi hans, tókst næstum að ráða foringjann af dögum í Valkyrjuáætlun sinni sumarið 1944.

Dresden upp úr 1890.
Dresden upp úr 1890. Ljósmynd/Library of Congress

Fyrsta árásardaginn viðraði lítt til loftárása í Evrópu og lögðu flugsveitir konunglega breska flughersins fyrstar af stað. Ákveðið hafði verið að fyrsta árásin yrði í tveimur hlutum, með þriggja tíma millibili. Síðari árásin skyldi gerð að óvörum þegar björgunarsveitir og slökkvilið væru komin á vettvang þeirrar fyrri, aðferðafræði sem hryðjuverkamenn líta enn til í dag.

Smærri árásir voru gerðar annars staðar snemma kvölds 13. febrúar til að kasta ryki í augu Þjóðverja. Þannig vörpuðu 360 Lancaster- og Halifax-sprengjuflugvélar breska flughersins sprengjum á olíuhreinsistöð í Böhlen, tæpa 100 kílómetra frá Dresden, og de Havilland Mosquito-vélar réðust á sama tíma á Magdeburg, Bonn og Nuremberg.

Tveggja tonna smákökur

Fyrsta flugsveitin sem flaug inn yfir Dresden laust fyrir klukkan 22 að kvöldi 13. febrúar var 83. sveit breska flughersins, hópur 5, Lancaster-vélar sem voru svokallaðir vegvísar (e. pathfinders). Þeirra hlutverk var að sleppa mörg hundruð magnesíumblysum í fallhlífum beint yfir borginni til að merkja þeim sem á eftir fylgdu skotmarkið.

Valköstur, hrúga af líkum, bíður brennslu í febrúar 1945. Útilokað …
Valköstur, hrúga af líkum, bíður brennslu í febrúar 1945. Útilokað var að koma mörg þúsund líkum í fjöldagrafir og brugðu þýsku hermennirnir þá á það ráð að brenna jarðneskar leifar íbúa Dresden. Ljósmynd/Rarehitoricalphotos.com

Fyrsta sprengjusveitin voru 254 Lancaster-vélar til viðbótar, diskastandurinn svokallaði, Plate Rack, sem báru samanlagt 500 tonn af sprengjum og 375 tonn af íkveikjusprengjum sem gjarnan innihéldu fosfór eða napalm. Þyngstu sprengjurnar sem vélarnar báru vógu tvö tonn og báru hið kaldhæðnislega viðurnefni smákökur, eða cookies. Þetta voru stærstu sprengjurnar sem breski flugherinn notaði í síðari heimsstyrjöldinni og gátu jafnað stærstu byggingar, jafnvel heilu göturnar, við jörðu á sekúndum.

Fyrstu sprengjunum í fyrstu atrennu var sleppt yfir Dresden klukkan 22:13 og þeim síðustu klukkan 22:28. Á mínútunum fimmtán þarna á milli vörpuðu Lancaster-vélarnar 881 tonni af sprengjum á borgina og lögðu gjörsamlega í rústir svæði að flatarmáli 2,0 sinnum 2,8 kílómetrar.

1.800 tonn af sprengiefni

Í samræmi við áætlunina réðust hópar 1, 3, 6 og 8 til atlögu þremur klukkustundum síðar. Eldtungurnar í Dresden eftir fyrstu árásina sáust úr 100 kílómetra fjarlægð á jörðu niðri og úr 800 kílómetra fjarlægð úr lofti, til samanburðar er lengd Íslands frá vestri til austurs um 500 kílómetrar, og náði reykjarmökkurinn tæpa fimm kílómetra upp af borginni. Á tímabilinu frá klukkan 01:21 til 01:45 vörpuðu 529 Lancaster-sprengjuvélar rúmlega 1.800 tonnum af sprengiefni til viðbótar yfir Dresden.

Flugsveitir Bandaríkjamanna áttu næsta leik. Um hádegisbil 14. febrúar, á degi elskenda, flugu 2.100 flugvélar bandaríska flughersins USAAF inn yfir Saxland, heimabyggð Dresden og Leipzig. Í þeim hópi voru meðal annars 316 B-17-sprengjuflugvélar, svokölluð Fljúgandi virki, og þeim til varnar 784 P-51 Mustang-orrustuvélar 8. flugsveitar USAAF.

Gamli bærinn í Dresden, Altstadt, um 1910, fyrir báðar heimsstyrjaldir. …
Gamli bærinn í Dresden, Altstadt, um 1910, fyrir báðar heimsstyrjaldir. Talið er að milli 22.700 og 25.000 manns hafi látist í loftárásunum 13. til 15. febrúar 1945. Þær tölur lágu þó ekki fyrir fyrr en árið 2010 eftir að nefnd hafði verið skipuð til að áætla mannfallið sem þýskir fjölmiðlar sögðu í byrjun að hefði verið 200.000 manns. Ljósmynd/Óþekkt

Töluvert skýjað var þennan dag og höfðu sprengjusveitirnar fyrirmæli um að ráðast á nágrannaborgina Chemnitz ef ekkert sæist af Dresden. Sæist hvorug borgin skyldi ráðist á miðborg Dresden og svokölluð H2X-ratsjá B-17-vélanna notuð til staðarákvörðunar. Árásirnar hófust klukkan 12:17 og lauk þrettán mínútum síðar. B-17-vélarnar vörpuðu þá 771 tonni af sprengjum á Dresden en aðrar vélar villtust af leið í skýjahulunni og vörpuðu alls 60 vélar sprengjum á Prag, Brux og Pilsen í misgripum.

Lokaatlagan að Dresden var gerð milli klukkan 12:00 og 12:10 þriðja daginn, 15. febrúar. Átti þá 401. flugsveit USAAF reyndar fyrst og fremst að ljúka árásinni á olíuhreinsunarstöðina í Böhlen en Dresden þjónaði sem varaskotmark væri skyggni slæmt. Svo fór að sveitin réðst á Dresden með aðstoð H2X-ratsjáa en hitti hvergi nærri þau svæði sem skotið var til og endaði á að varpa síðustu sprengjunum, sem Dresden mátti þola þessa þrjá daga, á úthverfi í suðausturhluta borgarinnar.

Bútar af útlimum um allt

Einn þeirra íbúa sem lifðu loftárásirnar á Dresden fyrir 75 árum af, Lothar Metzger, lýsti upplifun sinni í viðtali sem tekið var löngu síðar, í maí 1999 í Berlín. Metzger á lokaorðin í dag:

Þessu verður ekki lýst! Sprenging eftir sprengingu. Öllum martröðum verra og með öllu ótrúlegt. Svo margt fólk var brennt og sært. Æ örðugra var að draga andann. Það var myrkur og við reyndum öll skelfingu lostin að komast upp úr kjallaranum. Traðkað var á dánu og deyjandi fólki, farangur var skilinn eftir eða björgunarfólkið þá svipti honum úr höndum okkar.

Tvíburarnir lágu í körfu undir blautum klútum sem var rifin úr höndum móður minnar og fólkið að baki okkur ýtti okkur upp stigann. Brennandi gatan blasti við okkur, fullorðið fólk svo brunnið að það var á stærð við smábörn, bútar af útlimum um allt, heilu fjölskyldurnar brunnar til bana og logandi fólk hljóp fram og til baka, brunnir flutningabílar fullir af flóttafólki, látið björgunarfólk og hermenn, fólk hrópandi um allt í leit að börnum sínum og fjölskyldum og eldur alls staðar, alls staðar logaði og heitur gustur eldstormsins sogaði fólkið aftur inn í brennandi húsin sem það reyndi að flýja.

Ég get ekki gleymt þessum hroðalegu smáatriðum. Ég get aldrei gleymt þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert