100 kg af kókaíni í gámaskipi

Duncan Island liggur við festar í Kalundborg í morgun. Tæplega …
Duncan Island liggur við festar í Kalundborg í morgun. Tæplega 30 manns frá Filippseyjum, Lettlandi, Úkraínu, Rússlandi, Póllandi, Ekvador og Indlandi voru handteknir í tengslum við smygl á 100 kg af kókaíni í gær. AFP

Lögreglan í Kaupmannahöfn handtók 27 manns í gær og lagði hald á 100 kílógrömm af kókaíni á Langeland-eyju suðaustur af Fjóni. Efnið hafði verið flutt úr gámaskipinu Duncan Island yfir í vélbát sem lagðist upp að því og sigldi svo með efnið til eyjarinnar. Þar handtók lögregla þrjá menn og svo 24 til viðbótar eftir að lögreglulið fór um borð í gámaskipið sem er skráð á Bahama-eyjum en var að koma frá Helsingborg í Svíþjóð.

„Þessir þrír á Langeland höfðu hver sitt hlutverkið við smyglið,“ segir Jesper Bangsgaard aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við danska ríkisútvarpið DR. Hann vildi ekki staðfesta um hve mikið magn væri að ræða né hvers konar efni, en danska sjónvarpsstöðin TV2 segist hafa heimildir fyrir því að um 100 kíló af kókaíni sé að ræða.

Allt að 16 ára fangelsi

Þremur mönnum hefur verið sleppt, en Bangsgaard segir hina 24 áfram í haldi lögreglu þar til ljóst verði hvert hlutverk þeirra hafi verið í smyglinu. Allir 27 liggja þó enn undir grun. „Þetta eru atvinnusmyglarar sem við höfum í haldi og um leið höfum við komið í veg fyrir að mikið magn fíkniefna fari á markað í Danmörku,“ segir Bangsgaard. Allt að 16 ára fangelsi liggur við stórfelldum fíkniefnabrotum samkvæmt 191. grein dönsku hegningarlaganna.

Þremur mannanna hefur verið sleppt úr haldi og kannar lögregla …
Þremur mannanna hefur verið sleppt úr haldi og kannar lögregla nú hvert hlutverk hinna 24 hafi verið. Ekki er þó ljóst enn sem komið er hvort allir þeir sem handteknir voru hafi vitað af fíkniefnunum. AFP

TV2 hefur eftir Dannie Rise, rannsóknarlögreglumanni og stjórnanda rannsóknardeildar Kaupmannahafnarlögreglunnar, að ekki sé útilokað að frekari efni séu um borð í Duncan Island, margir tómir gámar séu um borð og eins margir gámar með banönum.

Eins segir Rise óvíst að allir þeirra, sem lögregla hefur í haldi, hafi vitað að fíkniefni væru um borð í skipinu, nú bíði lögreglu að komast á snoðir um það. Hinir handteknu eru frá Filippseyjum, Lettlandi, Úkraínu, Rússlandi, Póllandi, Ekvador og Indlandi.

Duncan Island var á leið til St. Pétursborgar í Rússlandi frá Helsingborg en mun svo hafa breytt um stefnu og siglt að Langeland þar sem lögregla beið þegar vélbáturinn kom að landi. Mennirnir voru teknir þegar þeir voru að setja efnin í farangursgeymslu bifreiðar sem beið þeirra og gámaskipið stöðvað skömmu síðar.

Berlingske Tidende

Jyllands-Posten

Avisen.dk

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert