Netskvísur Hamas blekktu ísraelska hermenn

Þetta er ein þeirra mynda sem Hamas-samtökin eru sögð hafa …
Þetta er ein þeirra mynda sem Hamas-samtökin eru sögð hafa notað til þess að blekkja ísraelska hermenn til að vingast við þau á samfélagsmiðlum. Ljósmynd/Ísraelsher

Hamas-samtökin hafa að undanförnu þóst vera ungar konur á samfélagsmiðlum, í því skyni að brjótast inn í farsíma hjá tugum ísraelskra hermanna. Samtökin stofnuðu upplognar notendasíður á samfélagsmiðlum og vinguðust þar við ísraelska hermenn og reyndu að fá þá til þess að sækja njósnabúnað í síma sína.

Ísraelsher sagði frá þessu á Twitter í gær, en einnig er fjallað um málið á vef BBC í dag. Samkvæmt umfjöllun BBC náðu Hamas-samtökin ekki að komast yfir neinar viðkvæmar upplýsingar úr símum hermannanna og Ísraelsher segist raunar á Twitter-síðu sinni hafa snúið vörn í sókn, komist að ráðabruggi Hamas og eyðilagt njósnaforritið sem samtökin starfræktu.

Jonathan Conricus hjá Ísraelsher segir við BBC að um sér að ræða þriðju tilraun Hamas-samtakanna til þess að brjótast inn í síma hermanna, en að þessi hafi verið sú fágaðasta hingað til.

Njósnaforritið virkaði þannig að þegar hermaðurinn opnaði hlekkinn frá „konunni“ fengu hakkararnir aðgang að öllum gögnum símans, þar á meðal staðsetningu, myndum og tengiliðum. Einnig gat forritið fjarstýrt símanum og tekið bæði myndir og hljóðupptökur án þess að eigandi símans yrði þess var.mbl.is