Bloomberg vex ásmegin

Ný könnun frá NPR, PBS News Hour og Marist mælir …
Ný könnun frá NPR, PBS News Hour og Marist mælir Bloomberg með 19% fylgi á meðal demókrata á landsvísu, en Bernie Sanders mælist með 31% fylgi í könnuninni. Joe Biden er þriðji með 15% og Elizabeth Warren með 12%. AFP

Auðmaðurinn Michael Bloomberg, sem sækist eftir því að verða forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í haust, tekur þátt í kappræðum forvalsframbjóðenda flokksins í fyrsta sinn á morgun, er frambjóðendur takast á fyrir forvalið í Nevada-ríki.

Bloomberg, sem er fyrrverandi borgarstjóri í New York, hefur nú notið yfir tíu prósenta stuðnings á landsvísu í fjórum skoðanakönnunum sem teknar eru gildar af Demókrataflokknum og fær hann því leyfi til að taka í sjónvarpskappræðum.

Ný könnun frá NPR, PBS News Hour og Marist mælir hann með 19% fylgi á meðal demókrata, en Bernie Sanders mælist með 31% fylgi í könnuninni. Joe Biden er þriðji með 15% og Elizabeth Warren með 12%.

Bloomberg, sem er 78 ára gamall, hefur eytt meiri peningum …
Bloomberg, sem er 78 ára gamall, hefur eytt meiri peningum í auglýsingar en nokkur annar frambjóðandi Demókrataflokksins. AFP

Bloomberg hefur eytt miklu meiri fjármunum en keppinautar hans í auglýsingar og hlaupa þær upphæðir þegar á hundruðum milljóna Bandaríkjadala, þrátt fyrir að Bloomberg sé í raun ekki byrjaður að taka þátt í forvalinu.

Hann hyggst þannig ekki leggja áherslu á að kynna sig og sín stefnumál sérstaklega í ríkjunum fjórum sem velja sér frambjóðendur allt þar til 3. mars, en á þeim degi, sem kallaður er „ofurþriðjudagurinn,“ eða Super Tuesday, fer forval fram í fjórtán ríkjum Bandaríkjanna á sama tíma.

Má búast við harðri gagnrýni frá vinstri

Búast má við því að andstæðingar Bloomberg sæki fast að honum á kappræðusviðinu annað kvöld, en bæði Elizabeth Warren og Bernie Sanders hafa sakað Bloomberg um að reyna að kaupa kosningarnar, með fáheyrðum fjárútlátum sínum, auk þess sem umdeild stefna hans um að herða virka löggæslu í hverfum minnihlutahópa í borgarstjóratíð hans í New York hefur verið til umræðu að undanförnu.

Bloomberg hefur neitað því að vera að reyna að kaupa kosningasigur og heitið því að ef hann sjálfur muni ekki standa uppi sem sigurvegari í forvalinu muni hann persónulega fjármagna frambjóðanda Demókrataflokksins, hver sem það yrði, til sigurs gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem mun verða fulltrúi Repúblikanaflokksins á kjörseðlum Bandaríkjamanna í haust.

Frétt BBC um málið

mbl.is