Þrælakista í neðanjarðarbyrgi á Spáni

Verksmiðjan var rekin í neðanjarðarbyrgi á Spáni.
Verksmiðjan var rekin í neðanjarðarbyrgi á Spáni. Ljósmynd/Europol

Spænska lögreglan upprætti ólöglega sígarettuframleiðslu í neðanjarðarbyrgi á fjögurra metra dýpi þar sem starfsmenn voru neyddir til að vinna við skelfilegar aðstæður. Þetta er fyrsta slíka verksmiðjan sem finnst í ríkjum Evrópusambandsins. 

Alls voru 20 handteknir í aðgerðum spænsku lögreglunnar 13. og 14. febrúar og eru þeir grunaðir um ólöglega framleiðslu á sígarettum og fíkniefnum. Europol studdi aðgerðir lögreglu en auk þess tóku tollayfirvöld í Litháen og pólska lögreglan þátt í rannsókninni auk bresku lögreglunnar.

Svefnrými starfsfólks.
Svefnrými starfsfólks. Ljósmynd/Europol

Í tilkynningu frá Europol kemur fram að í neðanjarðarbyrginu hafi hrátt tóbak verið skorið og gert tilbúið fyrir næsta stig framleiðslunnar. Talið er að skipulögð glæpasamtök hafi rekið verksmiðjuna í neðanjarðarbyrginu síðan í fyrra. Framleiðslan hafi öll verið undir einu þaki og þar voru einnig svefnrými fyrir starfsmenn að búa í. Þeir sem störfuðu í verksmiðjunni voru neyddir til að vinna við afar erfiðar og hættulegar aðstæður. Fólkið var læst inni á fjögurra metra dýpi þar sem það fékk ekki að yfirgefa byrgið án heimildar. Engar öryggisráðstafanir voru til staðar. 

Sígarettuframleiðsla í neðanjarðarbyrgi.
Sígarettuframleiðsla í neðanjarðarbyrgi. Ljósmynd/Europol

Europol bendir á að þrátt fyrir að þetta sé fyrsta svona verksmiðjan sem finnst í ríkjum ESB þá séu þær starfræktar annars staðar. Við þessar aðstæður er bundið fyrir augu starfsmanna þegar þeir fara til og frá verksmiðjunum. Þrátt fyrir að þeir fái greitt fyrir vinnu í verksmiðjunum er þeim yfirleitt bannað að yfirgefa staðinn eða eiga samskipti út fyrir byrgin á meðan þeir starfa þar. Gróði glæpamannanna af rekstri sem þessum nemur yfirleitt um 625 þúsund evrum, 87 milljónum króna á viku. 

Spænska lögreglan og Europol.
Spænska lögreglan og Europol. Ljósmynd/Europol

Lögregla leitaði á 13 stöðum í tengslum við rannsóknina og handtók eins og áður sagði 20 manns. Einn þeirra er talinn höfuðpaurinn. 

Meðal annars var hald lagt á rúmlega þrjár milljónir sígaretta, 20 kg af hassi, 144 kg af maríjúana, 3 vopn og 8 staðsetningartæki. 

Sígaretturnar voru seldar á svörtum mörkuðum í Evrópu en talið er að salan þar nemi 46,3 milljörðum sígaretta á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert