Weinstein sakfelldur — gæti fengið 25 ára dóm

Weinstein á leið í dómsal í New York í dag.
Weinstein á leið í dómsal í New York í dag. AFP

Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein var í dag fundinn sekur um kynferðisbrot, það er að hafa kynferðislegt samneyti við konu án þess að hún gæti gefið samþykki sitt, gegn einni konu og kynferðislega áreitni gagnvart annarri konu. Kviðdómur við dómstól í New York komst að þessari niðurstöðu. 

Wein­stein, sem er 67 ára, var ákærður í fimm liðum, eða fyr­ir tvenns kon­ar kyn­ferðis­árás­ir, tvær nauðgan­ir og eitt kyn­ferðis­brot. Weinstein var sýknaður af nauðgunarákærunum tveimur. Í kviðdóm­in­um eru sjö karl­menn og fimm kon­ur og tók það þau fimm daga að komast að niðurstöðu. 

Dómsalurinn var þétt setinn þegar dómurinn var kveðinn upp, enda varð mál Weinstein kveikjan að #metoo-hreyfingunni haustið 2017 þegar fjöldi kvenna steig fram og greindi frá því hvernig Weinstein hefði beitt þær kynferðislegri áreitni. Yfir 80 konur hafa sakað kvikmyndaframleiðandann um að hafa brotið á þeim kynferðislega. 

James Burke, dómari í málinu, gaf kviðdómendum hins vegar skýr fyrirmæli um að umræða um #metoo mætti með engum hætti hafa áhrif á störf þeirra. 

Weinstein á yfir höfði sér allt af 25 ára fangelsisvist eftir niðurstöðu kviðdómsins en ekki hefur verið ákveðið hvenær refsing hans verður ákveðin. Weinstein sýndi lítil sem engin viðbrögð í dómsalnum en dómarinn fyrirskipaði að hann yrði færður þegar í stað í fangaklefa og var hann leiddur út í járnum. 

Weinstein þarf að koma fyrir dóm í Los Angeles á næstunni þar sem hann er ákærður fyrir að nauðga tveimur konum árið 2013. Dagsetning í þeim réttarhöldum hefur ekki verið ákveðin.

mbl.is