Sænskur útgefandi dæmdur í 10 ára fangelsi

Gui Minhai ásamt dóttur sinni, Angela Gui.
Gui Minhai ásamt dóttur sinni, Angela Gui. AFP

Sænskur bókaútgefandi og bóksali hefur verið dæmdur í tíu ára fangelsi í Kína fyrir að hafa með ólöglegum hætti veitt erlendum leyniþjónustum upplýsingar. Málið hefur haft slæm áhrif á samskipti ríkjanna tveggja.

Gui Minhai er einn fimm bókaútgefanda í Hong Kong sem eru þekktir fyrir útgáfu á klúrum bókatitlum um kínverska stjórnmálaleiðtoga. Gui var handtekinn af kínverskum yfirvöldum um borð í lest á leið til Peking í febrúar 2018. Þetta var í annað skiptið sem hann var handtekinn af kínverskum yfirvöldum.

Gui var dæmdur í borginni Ningbo í gær og kom þar fram að Gui hafi fengið kínverskan ríkisborgararétt sinn endurnýjaðan árið 2018 en ekki kemur fram hvort hann hafi látið frá sér sænskan ríkisborgararétt á sama tíma. 

Gui hvarf árið 2015 er hann var í sumarleyfi í Taílandi. Hann kom síðar í ljós í Kína þar sem hann játaði að hafa orðið valdur að umferðarslysi og að hafa smyglað ólöglegum bókum. 

Hann afplánaði tveggja ára fangelsisdóm í Kína en þremur mánuðum eftir að hann var látinn laus í október 2017 var hann handtekinn á leið til Peking eins og áður sagði. Þar var hann í för með sænskum diplómötum. Stuðningsmenn hans og fjölskylda segja að handtaka hans sé hluti af pólitískum hreinsunum yfirvalda í Kína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert