„Það gerir þetta svo hættulegt“

Greta Thunberg smitaðist líklega af kórónuveirunni á ferðalagi um Mið-Evrópu …
Greta Thunberg smitaðist líklega af kórónuveirunni á ferðalagi um Mið-Evrópu og varar við hættunni sem getur fylgt því að finna fyrir litlum einkennum. AFP

Greta Thunberg, sænski loftslagsaðgerðasinninn, hefur verið í sjálfskipaðri sóttkví síðustu tvær vikur en hún telur mögulegt að hún hafi sýkst af COVID-19, sjúkdómnum sem kórónuveiran veldur, á ferðalagi sínu um Mið-Evrópu. Greta tjáir sig um veikindin á Facebook-síðu sinni og varar við hættunni sem getur fylgt því að finna fyrir litlum einkennum. 

Hún telur mögulegt að hún sé með veiruna en hún byrjaði að  finna fyrir einkennum fyrir tíu dögum. Faðir hennar fann einnig fyrir svipuðum einkennum en þau voru saman á ferðalagi, meðal annars í Brussel. 

„Ég var þreytt, með skjálfta, særindi í hálsi og hósta,“ lýsir Greta en pabbi hennar varð mun veikari og fékk til að mynda hita. 

Í Svíþjóð eru aðeins tekin sýni hjá þeim sem þurfa nauðsynlega að gangast undir læknishendur. Feðginunum hefur því einungis verið ráðlagt að vera í sóttkví. Greta hefur því ekki fengið það staðfest að hún hafi sýkst en hún telur það mjög líklegt. 

Gretu er nú gott sem batnað, en hún vill vekja athygli á því að hún hefur fengið mun verra kvef en af kórónuveirunni. „Mér fannst ég varla vera veik. Ef annar úr fjölskyldunni hefði ekki fengið veiruna á sama tíma hefði mig kannski ekki grunað neitt. Það gerir þetta svo hættulegt. Margir (sérstaklega ungt fólk) finna kannski ekki fyrir einkennum, eða fá væg einkenni. Þau vita ekki að þau eru með veiruna og geta smitað aðra, til dæmis þá sem eru í áhættuhópi,“ skrifar Greta.

mbl.is