Sá elsti sem hefur náð sér af veirunni

104 ára karlmaður hefur náð sér af veikindunum.
104 ára karlmaður hefur náð sér af veikindunum. AFP

Karlmaður, sem nýlega hélt upp á 104 ára afmælið sitt og barðist fyrir hönd Bandaríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni, er sá elsti í heiminum sem vitað er til að hafi náð sér af kórónuveirunni.

Bill Lapschies var einn fimmtán íbúa á hjúkrunarheimili í útjaðri Portland á vesturströnd Bandaríkjanna sem greindist með kórónuveiruna. Tíu þeirra hafa látið lífið.

„Ég veit ekki hvernig þetta gerðist. Maður getur losnað við hvað sem er,“ sagði Lapschies. Hann fékk ekki alvarleg einkenni veirunnar og þurfti ekki að færa hann á sjúkrahús vegna veikindanna.

„Elsti íbúinn okkar er búinn að jafna sig á kórónuveirunni og heldur upp á 104 ára afmæli,“ kom fram í Facebook-færslu hjúkrunarheimilisins í gær.

Lapschies fæddist árið 1916, tveimur árum áður en spænska veikin sýkti þriðjung mann­kyns og felldi tug­millj­ón­ir manna.

Fjölskylda Lapschies hélt upp á afmælið með blöðrum, köku og öllu sem þarf fyrir góða veislu. Enginn faðmaði þó afmælisbarnið að þessu sinni.

Umfjöllun um Lapschies.

mbl.is