Danmörk opnast í áföngum eftir páska

Mette Frederiksen á blaðamannafundinum í dag.
Mette Frederiksen á blaðamannafundinum í dag. AFP

Eftir páska mun ákveðnum takmörkunum á daglegu lífi Dana verða aflétt, takmörkunum sem hingað til hafa verið í gildi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á blaðamannafundi í kvöld. 

Fyrsti áfanginn hefst 15. apríl en þá verður leikskólabörnum aftur heimilt að fara í leikskólann, sem og fá yngstu börnin sem sækja dagvistun og grunnskólabörn á yngsta stigi grunnskólanna að snúa aftur í skólana sína.

Frederiksen sagði að opinberir starfsmenn myndu almennt halda áfram að vinna að heiman og hún hvatti starfsmenn í einkageiranum til að gera slíkt hið sama.

Bann við stórum viðburðum til loka ágúst

Áætlunin er þó ekki meitluð í stein. Ef faraldurinn fer aftur að þróast í verri átt er líklegt að aflétting takmarkana verði sett í biðstöðu. 

Bæði lokanir landamæra og bann við samkomum 10 eða fleiri hafa verið framlengd til 10. maí. Allir stórir viðburðir verða óheimilir til loka ágúst. 

Frederiksen greindi frá því að engin lokapróf yrðu haldin í opinberum skólum, fyrir utan próf útskriftarnema, á þessari önn vegna heimsfaraldursins. 

Verslunarmiðstöðvar, kvikmyndahús, söfn, líkamsræktarstöðvar og fleiri sambærilegir staðir verða áfram lokaðir en Frederiksen sagði að þeir yrðu opnaðir í næsta áfanga. 

Frederiksen sagði að það þyrfti ekki mikið til svo þróunin í Danmörku myndi versna og ítrekaði mikilvægi handþvottar, fjarlægðar og þess að fylgja tilmælum stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert