Neituðu launalækkun og starfsstöð lokað

AFP

Flugfélagið Laudamotion, sem er í eigu Ryanair, ætlar að loka starfsstöð sinni í Vín þar sem stéttarfélag starfsmanna í Austurríki neitaði að samþykkja launalækkun starfsmanna flugfélagsins. Laudamotion er eitt þeirra félaga sem hefur orðið illa úti vegna kórónuveirunnar.

Þetta þýðir að yfir 300 störf glatast í Vín á vegum flugfélagsins í Vín og segjast forsvarsmenn flugfélagsins harma þessa niðurstöðu en skrifstofunni verður lokað 29. maí. 

Ryanair hafði áður hótað því að loka starfsstöðinni ef ekki yrði gengið að samkomulagi um launalækkanir starfsmanna Laudamotion í Vín.

Flugfélagið rekur þrjár minni starfsstöðvar, tvær í Þýskalandi — Dusseldorf og Stuttgart, og eina á spænsku eyjunni Mallorka.

Vida er stéttarfélag starfsmanna í flutninga- og þjónustugreinum í Austurríki sem neitaði að samþykkja launalækkunina og sagði að launin sem væru í boði væru undir lágmarkslaunum í landinu. 

Laudamotion var stofnað á sínum tíma af ökuþórnum heimsþekkta, Niki Lauda,  en Ryanair keypti félagið árið 2018. Lauda lést fyrir ári, sjötugur að aldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert