„Þetta er ógnvænlegt ástand“

Halla Tómasdóttir segir ástandið í Bandaríkjunum farið að bera keim …
Halla Tómasdóttir segir ástandið í Bandaríkjunum farið að bera keim af borgarastyrjaldarástandi. Hún er stödd í New York þar sem mótmæli hafa versnað dag frá degi og ofbeldið færist í aukana bæði af hendi lögreglu og mótmælenda. AFP

Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team og fv. forsetaframbjóðandi, er stödd í New York þar sem hún er búsett ásamt fjölskyldu sinni. Þar gengur yfir gríðarleg mótmælaalda sem hefur vaxið frá degi til dags og ekki sér fyrir endann á. 

„Þetta er ógnvænlegt ástand,“ segir Halla í samtali við mbl.is. „Maður stendur auðvitað með þeim sem hér hafa farið fram með friðsamlegum mótmælum undanfarið en nú finnst mér margt benda til þess að öfgafólk frá báðum endum hins pólitíska litrófs brjótist fram á sviðið með uppsafnaða reiði. Niðurstaðan er umrót sem er í raun farið að bera keim af borgarastyrjaldarástandi þó að maður vilji kannski ekki endilega taka svo djúpt í árinni.“

Halla Tómasdóttir er búsett í New York ásamt fjölskyldu sinni.
Halla Tómasdóttir er búsett í New York ásamt fjölskyldu sinni. Skjáskot/Instagram

Síðustu nætur hafa milljónir manna um öll Bandaríkin þust út á stræti helstu borga Bandaríkjanna og mótmælt lögregluofbeldi. Kveikjan að mótmælunum var andlát George Floyd eftir harkalega meðferð lögreglu á honum við handtöku, en mótmælin hafa undið upp á sig og leitt í ljós mikla undirliggjandi óánægju undirsettra hópa. Einkum eru það svartir Bandaríkjamenn sem nú krefjast réttlætis.

Í New York hefur ástandið verið sérstaklega slæmt, en um leið er borgin ein þeirra sem verst hefur farið út úr kórónuveirufaraldrinum. Útgöngubann vegna farsóttarinnar er enn að hluta í gildi, á meðan sérstakt útgöngubann vegna mótmælanna hefur verið sett á víða í stórborgum Bandaríkjanna.

Á ekki von á að þetta klárist hratt

„Það sem maður hefur séð hér frá því á föstudagskvöld er löngu komið út fyrir það sem maður bjóst við. Hér eru lögregluþyrlur á sveimi eftir að innbrot og skemmdarverk fóru alveg úr böndunum í nótt, einkum í Soho. Á kvöldin hefur verið kveikt í lögreglubílum víða í borginni og í götunni okkar, þar sem er lögreglustöð, var fyrst lokað fyrir bílaumferð á föstudaginn en í gær fyrir gangandi umferð í þokkabót,“ segir Halla.

Mótmælin hafa færst í vöxt frá degi til dags og í gærkvöld var ástandið slíkt að Halla beindi syni sínum frá því að fara einn út með hundinn, sem hann gerir þó öllu jöfnu. Óeirðirnar blandast undantekningarástandi sem skapast hafði vegna kórónuveirufaraldursins og grímuskylda er enn í gildi vegna smithættu. Á sama tíma er efnahagsástandið verra en þekkst hefur á síðari tímum og tugir milljóna hafa misst vinnuna.

„Það setur sannarlega að manni ugg og það hryggir mann að sjá þetta brjótast út í ofbeldi úr öllum áttum bæði frá lögreglu og mótmælendum. Það eru síðan margir að taka þátt í þessu sem maður ætti ekki endilega von á að skærust í leikinn og út frá þessu öllu get ég ekki sagt að ég eigi von á að þetta muni klárast hratt,“ segir Halla. 

Mótmælendur á Union Square í gær.
Mótmælendur á Union Square í gær. AFP

Orð forsetans olía á eldinn 

Halla segir að á meðal þess sem veki hjá henni mestar áhyggjur sé að Bandaríkin finni ekki í þjóðarforystunni leiðtoga sem geti nálgast svona mál af yfirvegun og þannig undið ofan af ástandinu.

„Það hvernig forsetinn hefur hrært smátt og smátt í reiðipottinum í landinu taldi ég fyrir kórónuveiruna og mótmælin að gæti leitt til átaka. Nú er það að koma fram með ógnvænlegri hætti en ég þorði að vona,“ segir Halla.

„Það litla sem hefur heyrst frá honum um þetta hefur í raun bara orðið olía á eldinn ef eitthvað er og svartsýnustu spámenn hér telja jafnvel að hann muni nýta sér þessar óeirðir í pólitískum tilgangi. Það er ekki ljóst hvaðan nauðsynleg forysta til að mæta þessum aðstæðum kemur, því forsetinn virðist eingöngu hugsa um sjálfan sig og mögulegt endurkjör í nóvember,“ segir Halla.

mbl.is