Fleiri en áttatíu skotnir í Chicago

Chicago í næturhúminu í maí.
Chicago í næturhúminu í maí. AFP

Síðasta helgi var ein sú ofbeldisfyllsta á síðari tímum í Chicago-borg. Fleiri en áttatíu manns voru skotnir í borginni um helgina og þar af létust fleiri en tuttugu.

Flestir þeirra, eða fimmtán talsins, létust á sunnudag. Svo slæmt var ástandið að kalla þurfti sérstaklega út fleiri meinafræðinga til að kryfja þá látnu.

Fordæmalaus fjöldi manndrápa

„Þetta er fordæmalaus fjöldi manndrápa á einum degi fyrir embættið okkar,“ segir aðalréttarmeinafræðingurinn dr. Ponni Arunkumar í samtali við Chicago Tribune.

„Það mesta sem ég man eftir á einum degi, frá því ég byrjaði hér árið 2003, eru tíu.“

Bent er á í umfjöllun blaðsins að alda mótmæla vegna morðsins á George Floyd hafi skollið á borginni, eins og öðrum borgum Bandaríkjanna. Ekki er tekið fram hvort mótmælin tengist þessum fjölda dauðsfalla.

mbl.is