Segir að erlend ríki muni prenta kjörseðla

Trump hefur þegar ítrekað varpað skugga á heiðarleika forsetakosninganna.
Trump hefur þegar ítrekað varpað skugga á heiðarleika forsetakosninganna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt því fram á Twitter í dag að forsetakosningarnar í ár yrðu þær óheiðarlegustu í sögu Bandaríkjanna ef leyft yrði að greiða atkvæði með pósti. Þá segir hann möguleika vera á að erlend ríki og aðrir aðilar muni prenta ólöglega kjörseðla til að hafa áhrif á kosningarnar.

Vísar forsetinn í frétt sem birtist á Breitbart, þar sem dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, William Barr, sagði að atkvæðagreiðsla með pósti myndi opna flóðgáttirnar þegar kemur að mögulegu kosningasvindli.

Leita nýrra leiða vegna veirunnar

Nú styttist óðum í forsetakosningar í Bandaríkjunum. Kosið verður 3. nóvember og hyggst sitjandi Bandaríkjaforseti, Donald Trump, verja sæti sitt gegn Demókratanum og fyrrverandi varaforsetanum Joe Biden.

Vegna kórónuveirufaraldursins hafa mörg ríki í Bandaríkjunum leitað leiða til að kosningarnar geti átt sér stað án þess að hætta á möguleg smit. Atkvæðagreiðsla með pósti er ein þeirra leiða, en meðal ríkja sem hyggjast nýta slíka atkvæðagreiðslu eru Kalifornía, Georgía, Michigan og Iowa. 

Bandaríkjaforseti hefur margsinnis kastað skugga á mögulegan heiðarleika forsetakosninganna, en þetta er ekki í fyrsta skipti sem forsetinn beinir sjónum sínum að atkvæðagreiðslu með pósti. Trump hefur ítrekað haldið því fram að atkvæðagreiðsla með pósti leiði til kosningasvika og spilltra kosninga, en í maí merkti Twitter tvö tíst þess efnis frá forsetanum um sem misvísandi.

Demókratar segja að fordæming forsetans á póstatkvæðum sé tilraun til að minnka kjörsókn í kosningunum, en í umfjöllun the Guardian er hermt eftir öldungadeildarþingmanni Demókrata að forsetinn muni segja að kosningarnar séu spilltar sama hvernig fari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert