Dani af tansanískum uppruna myrtur

Blómum hefur verið komið fyrir við skýlið þar sem maðurinn …
Blómum hefur verið komið fyrir við skýlið þar sem maðurinn fannst látinn í síðustu viku. AFP

28 ára gamall danskur karlmaður af tansanískum uppruna fannst í síðustu viku myrtur við skýli í Nordskoven á dönsku eyjunni Borgundarhólmi. Tveir bræður hafa verið handteknir grunaðir um morðið. Mönnunum er gefið að sök að hafa sparkað í fórnarlambið, stungið það með hníf og slegið með flösku og kropið á hálsi hans með þeim afleiðingum að hann lést.

Bent hefur verið á líkindi þess síðastnefnda með drápi lögregluþjóns á George Floyd í Bandaríkjunum í maí og því verið velt upp hvort kynþáttafordómar séu ástæða morðsins. Ekstra Bladet greinir frá því að annar bræðranna hafi verið með sýnilegt nasistahúðflúr og hafi komið fram á viðburði stjórnmálamannsins Rasmus Paludan, formanns flokksins Starm Kurs, á Borgundarhólmi fyrir nokkrum vikum.

Flokkurinn var stofnaður fyrir síðustu þingkosningar í Danmörku en mistókst að koma manni á þing. Hann hefur boðað öfgafulla kynþáttahyggju sem felst meðal annars í að öllum íbúum Danmerkur, sem hvorki eru af vestrænum uppruna né danskir ríkisborgarar, skuli vísað úr landi. Þá segir að annar bræðranna hafi látið mynd með textanum „White Lives Matter“ í forsíðumynd á Facebook.

Lögregla hefur þó gefið út að ekkert bendi til þess að kynþáttafordómar hafi verið ástæða morðsins. Bente Petersen Lund, saksóknari hjá lögreglunni á Borgundarhólmi, segir í samtali við DR að drápið hafi líklegast átt sér stað eftir að samskipti hinna grunuðu og fórnarlambsins fóru úr böndunum.  „Á þessum tímapunkti er ekkert sem bendir í átt að rasisma,“ sagði Henrik Schou aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við DR í síðustu viku.

Þá hefur TV2 á Borgundarhólmi rætt við Tobias Brandt Krähmer, vin hins látna til 12 ára, og tekur hann undir mat lögreglu. „Ef maður lítur á samband hins látna og þeirra grunuðu þá þekktu þeir hver annan og það [rasismi] er almennt ekki nokkuð sem við veltum fyrir okkur í tengslum við morðið,“ segir Tobias Brandt Krähmer.

Thomas Falbe, fréttastjóri danska ríkisútvarpsins.
Thomas Falbe, fréttastjóri danska ríkisútvarpsins. Ljósmynd/DR

Ósátt við umfjöllun fjölmiðla

Danskir fjölmiðlar hafa legið undir ámælum fyrir að fjalla ekki nægilega um málið. Í grein á vef danska ríkisútvarpsins segir að danskir miðlar hafi síðustu daga fengið hafsjó tölvupósta þar sem þess er krafist að fleiri fréttir séu skrifaðar; fréttafæðin sé áhyggjuefni og til marks um áhugaleysi á kynþáttafordómum.

Fréttaritstjóri DR, Thomas Falbe, er sjálfur til viðtals á vef DR. Þar segir hann að ástæður séu fyrir því að fleiri fréttir hafi ekki verið skrifaðar. „Það liggja mjög takmarkaðar upplýsingar fyrir. Það gerir okkur erfitt fyrir að fjalla um málið að svo stöddu. Við getum ekki farið og skrifað fréttir um kynþáttafordóma að baki drápinu þegar yfirvöld hafa ekki komist að niðurstöðu,“ segir hann. 

„Hlutverk okkar sem blaðamenn er að ögra yfirvöldum sé tilefni til þess, en við erum ekki komin þangað nú. Á meðan lögregla segir að enn séu allir fletir til skoðunar verðum við að fylgja sömu línu í stað þess að reyna að túlka hvata þeirra án þess að hafa nokkrar heimildir fyrir því,“ segir Falbe. Aðspurður segist hann ætlast til þess að umfjöllun DR hefði verið sú sama þótt kynþætti árásarmanna og fórnarlambs hefði verið öfugt farið. „Við hefðum fylgt sömu stefnu.“

Undir þetta tekur Kristoffer Pinholt, stafrænn ritstjóri sjónvarpsstöðvarinnar TV2. „Við höfum líka rannsakað hvort eitthvað væri til í því. Við höfum talað bæði við lögreglu um skyldmenni fórnarlambsins og þau segja málið snúast um annað en rasisma,“ segir hann.

mbl.is