Viðbúið að glæpamenn muni selja bóluefni

AFP

Heimsfaraldur kórónuveiru hefur leitt til mikillar aukningar á kaupum og sölu á grímum, spritti og öðrum lækningavörum sem standast ekki kröfur, samkvæmt Sameinuðu þjóðunum sem vara við þróuninni í skýrslu sem kom út í dag og segja að lífum sé stefnt í hættu vegna þessa. 

Hópar sem stunda skipulagða glæpastarfsemi nýta sér ótta og óvissu um veiruna og útvega vörur sem þessar til þess að koma til móts við skyndilega aukna í eftirspurn, að því er fram kemur í skýrslunni sem fjallar um fíkniefni og glæpi.

Sameinuðu þjóðirnar búast við því að glæpamenn muni leggja frekari áherslu á sölu á einhvers konar bóluefnum sem standast ekki kröfur þegar bóluefni koma á markaðinn.

Græði á kvíða almennings

Svik og svindl sem og netárásir sem beinast að mikilvægum innviðum hafa fylgt útbreiðslu veirunnar. 

„Heilsa fólks og líf eru í hættu vegna þess að glæpamenn nýta COVID-19 faraldurinn til þess að græða á kvíða almennings og aukinni eftirspurn eftir hlífðarbúnaði og lyfjum,“ sagði Ghada Waly, framkvæmdastjóri fíkniefna- og glæpaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.

„Skipulögð glæpasamtök nýta sér eyður í reglugerðum þjóða og eftirliti þeirra til að selja ófullnægjandi læknavörur.“

Ólöglegar vörur fyrir tvo milljarða

Interpol einblíndi á ólöglega sölu á lyfjum og lækningavörum á netinu í aðgerð sinni í mars síðastliðnum. 90 lönd tóku þátt og leiddi aðgerðin til handtöku 121 manns um allan heim. Þá lagði lögregla hald á grímur og aðrar lækningavörur sem taldar voru mögulega hættulegar að andvirði 14 milljóna dala, eða því sem nemur tæpum tveimur milljörðum íslenskra króna.

Í samanburði við sambærilegra aðgerð Interpol árið 2018 lögðu lögreglumenn hald á 18% meira af veirueyðandi lyfjum í aðgerðinni nú í mars og meira en 100% meira af óleyfilegu klórókíni, malaríulyfi sem er notað til meðferðar COVID-19 sjúklinga í sumum löndum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert