Styttu af svartri konu steypt af stalli

Marc Quinn skapaði styttuna sem nú er geymd á safni …
Marc Quinn skapaði styttuna sem nú er geymd á safni í Bristol. Er honum boðið að sækja styttuna eða gefa safninu hana. AFP

Stytta af mótmælenda gegn rasisma í Bretlandi, sem var komið fyrir í stað fyrir styttu af þrælakaupmanni, var fjarlægð í morgun. Borgarstjórn Bristol, þar sem styttan stóð, greindi frá því í morgun að þau hefðu fjarlægt styttuna, sem bar heitið „Alda krafts“ og sýndi Black Lives Matter mótmælandann Jen Reid með hnefann á lofti, einungis sólarhring eftir að henni var komið fyrir á staðnum þar sem þrælakaupmaðurinn stóð áður án leyfis. 

„Í morgun fjarlægðum við styttuna,“ sagði borgarstjórnin í tilkynningu. „Hún mun vera á safninu okkar og listamaðurinn sem skapaði hana getur sótt hana eða gefið hana í safnið okkar.“

Borgin vill koma að ákvörðuninni

Styttunni var komið fyrir leynilega í gær og var gjörningurinn innblásinn af atburði í síðasta mánuði þar sem and-rasískir mótmælendur fjarlægðu styttu af þrælakaupmanninum Edward Colston og vörpuðu henni í sjóinn. 

Reid var hæstánægð með styttuna og sagði að hún myndi verða til þess að halda samræðum um kynþáttamisrétti áfram í samfélaginu. Borgarstjórn Bristol var ekki á sama máli og sögðu embættismenn að það ætti að vera ákvörðun allrar borgarinnar hvað ætti að koma í stað styttunnar af Colston sem hafði staðið í Bristol frá árinu 1895.

Mótmæli gegn kynþáttamisrétti hófust í Bristol í kjölfar þess að lögreglumaður drap George Floyd, svartan mann í Bandaríkjunum. Andlát hans knúði fram mótmæli á heimsvísu, meðal annars í Bretlandi þar sem áhersla hefur verið lögð á nýlendutímann og þann þátt sem Bretar áttu í honum.

mbl.is

Bloggað um fréttina