Kallar Tsíkanovskaju þjóðarleiðtoga Hvít-Rússa

Skvernelis kallar Tsíkanovskaju þjóðarleiðtoga Hvítrússa í Facebook-færslu sinni.
Skvernelis kallar Tsíkanovskaju þjóðarleiðtoga Hvítrússa í Facebook-færslu sinni. Skjáskot/Saulinas Skvernelis

Svetlana Tsíkanovskaja, einn helsti leiðtogi mótmælenda í Hvíta-Rússlandi, hitti forsætisráðherra Litháens, Saulius Skvernelis, á skrifstofu hans í dag. Tsíkanovskaja flúði til Litháens af ótta við að verða tekin höndum eftir að hafa nýverið lotið í lægra haldi fyrir forseta Hvíta-Rússlands, Alexander Lúkasjenkó, í umdeildum forsetakosningum. Forsætisráðherra Litháens kallar Tsíkanovskaju þjóðarleiðtoga í tilkynngu á facebooksíðu sinni.

Kapp lagt á að styðja Hvítrússa

„Ég fundaði með þjóðarleiðtoganum Svetlönu Tsíkanovskaju í dag.“ Á þeim orðum hefst færsla Saulius Skvernelis, forsætisráðherra Litháens, sem hann setti á facebooksíðu sína í dag. Hann segist jafnframt hafa rætt við Tsíkanovskaju um þær áskoranir sem hún hafi mætt í aðdraganda forsetakosninganna 9. ágúst síðastliðinn.

„Landið okkar hefur alltaf stutt við bakið á hvítrússnesku þjóðinni í leit hennar að frelsi og lýðræði. Við sjáum þá vitundarvakningu sem er að eiga sér stað og styðjum alla Hvít-Rússa.“ Skvernelis segir enn fremur að félagar Litháa við Eystrasaltið: Pólland, Lettland og Eistland, muni gera allt sem í þeirra valdi stendur svo hvítrússneska þjóðin megi kjósa sér leiðtoga í frjálsum og opnum kosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert