Greindu hjartslátt en fundu engan á lífi

Björgunarsveitir leita fólks í rústum í Beirút, höfuðborg Líbanons.
Björgunarsveitir leita fólks í rústum í Beirút, höfuðborg Líbanons. AFP

Ekkert gekk í örvæntingarfullri leit björgunarsveitar frá Síle í hruninni byggingu í Gemmayze-hverfinu í Beirút í Líbanon, mánuði eftir gríðarlegar sprengingar sem jöfnuðu nánast allt svæðið umhverfis höfn borgarinnar við jörðu. 

Íbúar í Beirút héldu niðri í sér andanum eftir að lífsmerki greindust aftur í rústunum á laugardagsmorgun. Björgunarsveitin sendi þó frá sér leiðinlegar fréttir seint í kvöld, fréttir um að leitin hefði ekki borið árangur. 

„Því miður getum við sagt að það sé ekkert líf innan í byggingarinnar,“ sagði Francisco Lermanda, yfirmaður sveitarinnar, á blaðamannafundi í kvöld. 

„Við útbjuggum göng sem gátu fært fólk niður í bygginguna og tvær björgunarkonur fóru niður um þau vegna sérþekkingar sinnar og stærðar. Þær fundu engan svo við getum loksins sagt með vissu að enginn hafi verið þarna inni,“ bætti Francisco við. 

Nam sterkan hjartslátt í morgun

Björgunarsveitin ætlar að halda áfram að leita í rústum við gangstéttina við húsið eitthvað fram á nótt. Fyrst var leitarhópnum gert viðvart um að einhver gæti hugsanlega verið inni í byggingunni á fimmtudag af leitarhundinum Flash sem er þjálfaður í að leita að fólki. 

Sérstakur nemi björgunarsveitarinnar frá Síle nam hjartslátt í kringum 17 slög á mínútu á fimmtudag. Neminn skynjaði hjartslátt sem barst frá stigagangi á milli byggingarinnar og verslunar. Á föstudag nam neminn veikari hjartslátt. Þegar neminn var svo prófaður í morgun nam hann sterkan hjartslátt og andardrátt. 

Þrátt fyrir það fundu björgunarsveitir engan í húsinu. 

Alls lést 191 í spreng­ing­un­um 4. ág­úst en sjö er enn saknað. Auk þess misstu um 300.000 heim­ili sitt í sprengingunum.

Frétt ABC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert