Handtökur í tengslum við andlát leikara

Lögreglan handtók Rhea Chakraborty í gær.
Lögreglan handtók Rhea Chakraborty í gær. AFP

Bollywood-leikkonan Rhea Chakraborty var handtekin í gær fyrir að hafa keypt lyf fyrir unnusta sinn, leikarann Sushant Singh Rajput, sem lést í júní.

Rajput, sem var 34 ára gamall, fannst látinn á heimili sínu í Mumbai og að sögn lögreglu framdi leikarinn sjálfsvíg. Í kjölfarið fór af stað mikil umræða á Indlandi um andlega líðan þeirra sem starfa í Bollywood, indverska kvikmyndaheiminum sem veltir milljörðum Bandaríkjadala ár hvert.

Fjölskylda Rajputs var ekki sátt við fréttir um að hann hafi verið þunglyndur og sakaði  Chakraborty um að hafa stolið peningum frá honum og áreitt hann. Þessu harðneitar hún.

Fleiri en Chakraborty voru handteknir í gær í tengslum við rannsóknina þar á meðal bróðir hennar og starfsmaður á heimili Rajputs.

Rhea Chakraborty í lögreglubíl eftir að hafa verið handtekin í …
Rhea Chakraborty í lögreglubíl eftir að hafa verið handtekin í gær. AFP

Miðlæg rannsóknardeild alríkislögreglunnar tók við rannsókn andláts leikarans í síðasta mánuði og fíkniefnadeild lögreglunnar rannsakar einnig kannabisneyslu leikarans.

Yfirmaður miðlægu deildarinnar, Mutha Ashok Jain, segir að deildin muni leggjast gegn því að þeir sem hafi verið handteknir verði leystir úr haldi gegn tryggingu. Leikkonan hefur verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til 22. september.

Þekkt fólk í indverska kvikmyndaiðnaðinum sakar sjónvarpsstöðvar um nornaveiðar gagnvart Chakraborty. Meðal þeirra sem hafa tjáð sig þar um eru leikkonan Sonam Kapoor og leikstjórinn Anurag Kashyap.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert