Navalní getur gengið en finnur fyrir skjálfta

Navalní birti þessa ljósmynd af sér ganga niður tröppur á …
Navalní birti þessa ljósmynd af sér ganga niður tröppur á Instragram í dag. AFP

Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní greindi frá því í dag að hann gæti nú gengið um en fyndi þó fyrir skjálfta í fótleggjum. Hann greindi ennfremur ítarlega frá bataferli sínum nú rúmum mánuði eftir að hafa orðið fyrir eitrun. 

Navalní, sem er 44 ára, birti mynd af sjálfum sér á Instragram sem sýnir hann ganga niður tröppur. Hann segir ennfremur frá því að á meðal fyrstu einkenna sem hann varð fyrir hafi verið að hann átti erfitt með að mynda orð og þurfti aðstoð við það. Hann á einnig erfitt með að nota síma, en vinir hans og fjölskylda hafa aðstoðað við að birta færslur og myndir á samfélagsmiðlum. 

„Núna er ég náungi sem er með skjálfandi fótleggi þegar ég fer upp tröppur,“ skrifar Navalní. Hann segir jafnframt að hann hafi verið örvæntingarfullur eftir að hafa verið byrlað eitrið novichok fyrir mánuði. En hann hefur verið undir læknishöndum undanfarnar vikur sem hafa náð að hjúkra honum aftur til heilsu. 

Á þriðjudag greindi Navalní frá því að það hefði verið fyrsti dagurinn sem hann gat andað án aðstoðar. 

Navalní veiktist þegar hann var að fljúga frá Síberíu til Moskvu 20. ágúst. Hann lá á sjúkrahúsi í Rússlandi í tvo sólarhringa áður en flogið var með hann á sjúkrahús í Berlín í Þýskalandi.

mbl.is