Tveir repúblikanar vilja bíða með skipan dómara

Fólk safnaðist saman fyrir utan Hæstarétt Bandaríkjanna í gær til …
Fólk safnaðist saman fyrir utan Hæstarétt Bandaríkjanna í gær til minningar um hæstaréttardómann Ruth Bader Ginsburg, sem lést í fyrradag. AFP

Lisa Murkowski, öldungardeildarþingmaður repúblikana í Bandaríkjunum, greindi frá því í dag að hún muni ekki greiða atkvæði með skipan nýs dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna fyrr en eftir forsetakosningar í landinu.

Hún er annar þingmaður flokksins sem hefur lýst sig andsnúinn áætlunum um að fylla sæti Ruth Bader Ginsburg fyrir kosningarnar. Susan Collins, þingmaður repúblikana frá Maine í öldungadeildinni, gekk enn lengra í gær þegar hún lýsti því yfir í gær að arftaki Ginsburg ætti að vera tilnefndur af þeim sem Bandaríkjamenn kjósa sem forseta í nóvember.

„Vikum saman hef ég sagt að ég munu ekki styðja að fyllt sé í sæti hæstaréttardómara svo skömmu fyrir kosningar,“ segir Murkowski í yfirlýsingu sem gefin var út í dag. „Því miður var það aðeins ímynduð staða á sínum tíma, en raunveruleiki nú. En skoðun mín hefur ekki breyst,“ segir Murkowski.

Þyrftu tvo til viðbótar

Hæstaréttardómarinn Ruth Bader Ginsburg lést í fyrradag, 87 ára að aldri. Lögum samkvæmt er það í höndum forseta Bandaríkjanna að tilnefna arftaka hennar en öldungadeild þingsins þarf að staðfesta tilnefninguna. Hefur Trump forseti sagst ætla að skipa konu í hennar stað. Nái Trump sínu fram er við því að búast að valdahlutföll innan dómsins breytist til muna. Sex sæti við réttinn yrðu þá skipuð dómurum repúblikana en þrjú dómurum demókrata.

Mitch McConell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, hefur lýst því að repúblikanar séu ákveðnir í að skipa hæstaréttardómara í sæti Ginsburg áður en forsetakosningar fara fram í nóvember. Hefur McConell verið sakaður um hræsni enda komu repúblikanar í veg fyrir að Barack Obama Bandaríkjaforseti gæti skipað dóamra árið 2016, þegar sæti losnaði, á þeim forsendum að of stutt væri í næstu forsetakosningar. Voru þá 237 dagar til kosninga, samanborið við 45 daga þegar Ruth Bader Ginsburg lést.

Repúblikanar hafa 53 sæti af 100 í öldungadeildinni. Því þyrftu fjórir þingmenn flokksins, þ.e. tveir til viðbótar, að kjósa gegn tilnefningu Trumps til að koma í veg fyrir hana að því gefnu að þingmenn demókrata fylgi allir flokkslínu.

mbl.is