Engir lýðræðissinnaðir þingmenn eftir

Lýðræðissinnaðir þingmenn taka höndum saman á blaðamannafundi þar sem afsagnirnar …
Lýðræðissinnaðir þingmenn taka höndum saman á blaðamannafundi þar sem afsagnirnar voru tilkynntar. AFP

Allir lýðræðissinnaðir þingmenn Hong Kong hafa sagt af sér eftir að fjórum kollegum þeirra var vikið frá störfum. Ráðamenn í Kína samþykktu í dag ályktun sem heimilar stjórnvöldum í Peking að dæma stjórmálamenn sem taldir eru ógna þjóðaröryggi vanhæfa. 

Samþykktin er sögð nýjasta útspil Kína sem miðar að því að takmarka frelsi Hong Kong. 

Stuttu eftir að ályktunin var samþykkt sagði Wu Chi-wai, formaður Demókrataflokksins í Hong Kong við blaðamenn að allir þingmenn flokksins myndu hætta störfum fyrir löggjafarþing borgarinnar. 

„Við munum standa með kollegum okkar sem voru dæmdir vanhæfir,“ sagði hann. 

Fyrrnefnd ályktun felur í sér að þingmönnum skuli vera vikið frá störfum ef þeir styðja sjálfstæði Hong Kong, biðja erlend öfl um að blanda sér í málefni borgarinnar eða ógna þjóðaröryggi með öðrum hætti. 

Nánast um leið og ályktunin var samþykkt var fjórum þingmönnum úr tveimur flokkum vikið frá störfum, Alvin Yeung, Kwok Ka-ki, Dennis Kwok og Kenneth Leung. Allir eru þeir þó álitnir hófsamir og hafa aldrei stutt sjálfstæði Hong Kong. 

Frétt BBC

mbl.is