Löreglumönnum vikið frá vegna barsmíða

Mikil reiði greip um sig meðal almennings í Frakklandi eftir að myndskeið sem sýnir lögreglu berja svartan tónlistarupptökustjóra í París var birt á netinu í gær.

Nokkrum lögreglumönnum hefur verið vikið frá vegna rannsóknar á málinu en meðal þeirra sem hafa fordæmt aðgerðir lögreglu eru knattspyrnuhetjur Frakklands, liðsmenn karlalandsliðsins í knattspyrnu sem urðu heimsmeistarar árið 2018.

Myndskeiðið var sem olía á eld reiði fólks vegna lögregluofbeldis í Frakklandi, ekki síst vegna frumvarps til laga sem ríkisstjórnin hefur lagt fram þar sem lagt er bann við að almennir borgarar megi taka upp og birta myndir af lögreglu að störfum.

Fréttavefurinn Loopsider birti í gær upptökur úr öryggismyndavélum þar sem þrír lögreglumenn sjást berja og sparka í upptökustjórann. Jafnframt börðu þeir hann með kylfum sínum þegar hann kemur inn í hljóðver sitt í París seint á laugardagskvöldið.

Barsmíðarnar stóðu yfir í um fimm mínútur og þeim tíma tvinnuðu lögreglumennirnir saman fúkyrðum sem innihéldu meðal annars rasísk viðhorf þeirra. Síðan drógu þeir hann út úr húsinu sem er í 17. hverfi. 

Upptökustjórinn, sem heitir Michel, var handtekinn fyrir ofbeldi og neita að hlýða lögreglunni. En saksóknari hafnaði þegar málatilbúnaði lögreglunnar og hóf þess í stað rannsókn á lögreglumönnunum sjálfum. Þeir eru grunaðir um að hafa beitt ofbeldi í starfi.  

Innanríkisráðherra Frakklands,Gérald,Darmanin, segir að lögreglumennirnir hafi svívirt búning lýðveldisins og hann myndi krefjast þess að þeir yrðu reknir úr starfi. Samkvæmt heimildum BBC var fjórum lögreglumönnum vikið frá vegna málsins. 

Michel ræddi við blaðamenn fyrir utan höfuðstöðvar ríkislögreglustjóra (IGPN) í …
Michel ræddi við blaðamenn fyrir utan höfuðstöðvar ríkislögreglustjóra (IGPN) í París í gær. AFP

Myllumerkið #Michel var aðalmálið á samfélagsmiðlum í Frakklandi í gær og hafa meðal annars stjórnmálamenn og knattspyrnumenn fordæmt lögregluna þar. 

„Fólk sem átti að verja mig, réðst á mig. Ég gerði ekkert til að verðskulda þetta. Ég vil að þessum þremur einstaklingum verði refsað þar sem fyrir erum með gott réttarkerfi í Frakklandi,“ sagði Michel við blaðamenn í gær. „Ég var heppinn því ég var með myndefni sem varði mig ólíkt mörgum öðrum. Að öðrum kosti væri ég ekki hér með ykkur.“

Lögmaður Michels, Hafida El Ali, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að skjólstæðingi hans hafi verið haldið í varðhaldi í tvo sólarhringa eftir barsmíðarnar. 

AFP
mbl.is