Konur í framvarðasveit Hvíta hússins

Jen Psaki.
Jen Psaki. AFP

Verðandi forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, kynnti í gær hverjir myndu stýra samskiptamálum forsetaembættisins eftir valdaskiptin 20. janúar. Konur munu skipa þar allar stjórnunarstöður en það hefur ekki gerst áður í sögu forsetaembættisins. Meðal þeirra er Jen Psaki en hún verður upplýsingafulltrúi Hvíta hússins. 

Psaki hefur gegnt ýmsum mikilvægum stöðum innan bandaríska stjórnkerfisins, þar á meðal var hún samskiptastjóri ríkisstjórnar Barack Obama á sínum tíma.

Biden og verðandi varaforseti, Kamala Harris, hafa lagt áherslu á að fjölbreytni ríki við val á þeim einstaklingum sem verða í framvarðasveit landsins næstu fjögur árin. 

„Ég kynni með stolti fyrsta teymi stjórnenda samskiptamála Hvíta hússins sem er einvörðungu skipað konum,“ segir í yfirlýsingu Biden. Þar á meðal er Kate Bedingfield sem var aðstoðarkosningastjóri Bidens. Hún var einnig samskiptastjóri Bidens þegar hann var varaforseti.

Ashley Etienne verður samskiptastjóri Harris og  Symone Sanders verður ráðgjafi Harris og helsta talskona.

Pili Tobar verður aðstoðarsamskiptastjóri Hvíta hússins og Karine Jean Pierre verður varafjölmiðlafulltrúi forsetaembættisins. Elizabeth Alexander mun stýra samskiptamálum forsetafrúar Bandaríkjanna, Jill Biden.

Ekki þarf samþykki öldungadeildarinnar fyrir veitingu þessara embætta ólíkt flestum yfirmannsstöðum sem ríkisstjórn kemur að.

mbl.is