Frakkar hefja umfangsmikla bólusetningu í vor

Maður reykir pípu án þess að taka af sér grímuna …
Maður reykir pípu án þess að taka af sér grímuna í borginni Nantes í vesturhluta Frakklands. AFP

Frakkar stefna á að hefja umfangsmikla bólusetningu fyrir alla þjóðina gegn Covid-19 frá apríl til júní á næsta ári. Emmanuel Macron Frakklandsforseti greindi frá þessu í dag.

Fyrst verða viðkvæmustu hóparnir bólusettir snemma á næsta ári og eftir það hefst önnur herferð þar sem afgangurinn af þjóðinni verður bólusettur, sagði Macron á blaðamannafundi.

Jean Castex, forsætisráðherra Frakklands, sagði á þinginu að fólk á dvalarheimilum fyrir aldraða og einhverjir starfsmenn þar verði í forgangi vegna bólusetningar.

Greint var frá því í gær að banda­ríska lyfja­fyr­ir­tækið Moderna myndi óska eft­ir heim­ild yf­ir­valda í Evr­ópu og Banda­ríkj­un­um til að setja bólu­efni fyr­ir­tæk­is­ins við kór­ónu­veirunni á markað. Rann­sókn hef­ur leitt í ljós að bólu­efnið virk­ar í 94,1% til­vika við veirunni.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti. AFP
mbl.is