Vígahnöttur yfir Noregi

Ein margra mynda af för loftsteinsins yfir Norður-Noregi í kvöld …
Ein margra mynda af för loftsteinsins yfir Norður-Noregi í kvöld sem sjónarvottar hafa sent Norsk meteornettverk. Stjörnufræðingur þar segir steininn hafa verið mjög stóran og aðeins fimm af svipaðri stærð sést yfir Noregi síðan áhugamannasamtökin voru stofnuð árið 2013. Ljósmynd/Vegfarandi

Tilkynningar hafa borist frá fjölda manns í nyrstu fylkjum Noregs um eldhnött á himni um kvöldmatarleytið í kvöld, óvenjustóran loftstein, eða vígahnött, sem kom inn í andrúmsloft jarðar og brann þar upp með skærum bjarma.

Einn sjónarvottanna, leigubifreiðarstjórinn Øyvind Langsæther í Narvik, náði skýru myndskeiði af fyrirbærinu á mælaborðsmyndavél bifreiðar sinnar. „Ég ákvað að stoppa og athuga tímasetninguna á myndavélinni. Skömmu síðar leit ég á fréttasíður og sá þá að fleiri höfðu séð það sama,“ segir Langsæther við norska ríkisútvarpið NRK og bætir því við að þótt hann hafi oft séð stjörnuhröp hafi hann aldrei séð neitt sem kæmist í hálfkvisti við sýn hans í kvöld.

Á braut um sólu í milljónir ára

„Þetta er hefðbundin eldkúla [tradisjonell ildkule],“ segir Vegard Lundby Rekaa, stjörnufræðingur hjá Norsk meteornettverk, áhugamannasamtökum um loftsteina sem stofnuð voru árið 2013. „Þetta er steinn utan úr geimnum sem hefur verið á braut um sólu í milljónir ára áður en hann rataði inn í andrúmsloftið okkar.“

Rekaa segir svo stóra loftsteina sjaldséða gesti, um fimm slíkir hafi sést yfir Noregi þann tíma sem Norsk meteornettverk hafi verið starfrækt. Hann segir loftsteininn hafa komið inn í andrúmsloftið á mikilli ferð, það sýni blossinn sem hann gaf frá sér auk þess sem hann hafi greinilega verið stór.

Vonast eftir fleiri myndum

„Hve stór hann var er erfitt að segja til um. Svo virðist sem hann hafi stafað frá sér birtu frá því hann kom inn [í lofthjúpinn] í um 110 kílómetra hæð og þar til hann var kominn niður í 60 kílómetra hæð. Mikill hraði og bratt aðflugshorn gefur til kynna að hann hafi brunnið alveg upp,“ segir Rekaa að lokum og kveðst vonast til þess að þeir sem náðu myndum og myndskeiðum láti ekki sitt eftir liggja við að senda Norsk meteornettverk efni sitt.

NRK

Fremover (greindi fyrst frá en rekur læsta síðu)

Síða Norsk meteornettverk

mbl.is