„Gríðarleg vonbrigði“ segir dómsmálaráðuneytið

Stofnandi Wikileaks, Julian Assange.
Stofnandi Wikileaks, Julian Assange. AFP

Bandaríska dómsmálaráðuneytið segir það gríðarlega mikil vonbrigði að breskur dómstóll hafi ákveðið í dag að Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, yrði ekki framseldur til Bandaríkjanna. Assange á yfir höfði sér allt að 175 ára fangelsi í Bandaríkjunum fyrir njósnir. 

„Á meðan við erum gríðarlega vonsvikin yfir dómnum erum við ánægð með að Bandaríkin höfðu betur í þeim þáttum dómsins er sneru að lögum," segir í tilkynningu frá dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna.

Ákveðið var að Assange yrði ekki framseldur á grundvelli þess að hann á við geðræn vandamál að stríða og óttast var að hann fremdi sjálfsvíg yrði hann framseldur til Bandaríkjanna. Dómari í málinu sagði að ekki væri fullvíst að Bandaríkjamenn gætu tryggt öryggi Assange í fangelsi sem þekkt er fyrir „harðneskjulegar aðstæður.“

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks og vinur Assange, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að dagurinn í dag væri sigurdagur. Hins vegar væri slagurinn ekki unninn þar sem líklegt þykir að málinu verði áfrýjað og að í dag hafi dómari hallast að málflutningi Bandaríkjamanna í öllum þeim þáttum er snéru að blaðamennsku. Aðeins hafi náðst sigur í dag vegna ástands Assange.

mbl.is